Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, nýr þingmaður Framsóknarflokksins, vill bæta upplýsingamiðlum um heimilisofbeldi milli barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu, heilbrigðisstofnana, skóla og lögreglunnar.

Þetta kemur fram í nýrri þverpólitískri þingsályktunartillögu sem Hafdís Hrönn lagði fram á Alþingi í dag. Hafdís Hrönn er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en að henni standa einnig þingmenn Framsóknar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar.

Þingmennirnir vilja að Alþingi álykti að fela Jóni Gunnarssyni, nýskipuðum innanríkisráðherra, að setja á fót starfshóp til að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til að bæta samskipti um þessi mál milli viðeigandi yfirvalda.

Markmiðið er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndayfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu.

Vefgátt ríkislögreglustjóra hefur hjálpað

Rúmt ár er liðið frá því ríkis­lög­reglu­stjóri opnaði sér­staka vef­gátt 112 vegna of­beldis. Gáttinni er ætlað að auð­velda þol­endum, ger­endum og að­stand­endum að leita sér að­stoðar. Frá opnun hafa að meðal­tali 235 ein­staklingar heim­sótt síðuna á dag. Sam­kvæmt lög­reglunni er fjöldi heim­sókna tals­vert meiri en búist var við og sýnir að þörfin fyrir slíkt úr­ræði er mikil.

Í greinagerð sem fylgir tillögunni kemur fram að þótt nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafi reynst vel veigri þolendur heimilisofbeldis sér oft við því að tilkynna mál til lögreglu, sérstaklega í litlum sveitarfélögum.

„Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum,“ segir í greinargerðinni.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.