Guðni Bergs­son, for­maður KSÍ, hafði ekki heyrt af því að Simon Migno­let, mark­maður Belgíu hefði greinst já­kvæður með CO­VID-19 í dag þegar Frétta­blaðið heyrði í honum hljóðið í kvöld.

Guðni segir það því ekki hafa komið til skoðunar að skima lands­liðs­menn Ís­lands að nýju. Hann segir að staðan verði tekin á málinu í fyrra­málið og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um við­brögð KSÍ.

Migno­let greindi sjálfur frá því á Twitter í dag að hann hefði greinst í morgun með CO­VID. Hann sagðist vera við góða heilsu og að hann væri ein­kenna­laus.

Líkt og al­þjóð lík­legast veit spilaði Migno­let gegn ís­lenska karla­lands­liðinu á Laugar­dals­velli í síðustu viku. Varð hann meðal annars að játa sig sigraðan gegn Birki Má Sæ­vars­syni sem skoraði eina mark Ís­lands í leiknum.

Sótt­varnar­mál KSÍ og lands­liðsins voru til mikillar um­ræðu í síðustu viku, eftir að greint var frá því að starfs­lið lands­liðsins hefði verið sent í sótt­kví vegna smits Þor­gríms Þráins­sonar. Sjálfur braut hann sótt­varnar­reglur þegar hann gekk inn á völlinn og knúsaði lands­liðs­menn í liðinni viku.