Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði Ríkislögreglustjóra, segir hækkað viðbúnaðarstig lögreglunnar snúa að viðbúnaði og verklagi lögreglu. En það hefur verið hækkað úr því lægsta í næstlægsta, A í B.

„Þetta hefur ekki í för með sér aukinn sýnileika gagnvart almenningi. Þetta snýr fyrst og fremst að mönnun hjá okkur og viðbúnaði,“ segir Karl Steinar. Ekki hafi verið stætt á öðru en að hækka viðbúnaðarstigið eftir að greiningardeild Ríkislögreglustjóra hafi metið stöðuna ótryggari en áður. En þetta var gert í kjölfarið á því að tveir menn sem ákærðir hafa verið fyrir hryðjuverkabrot, var sleppt úr haldi eftir úrskurð Landsréttar þann 13. desember.

Karl Steinar að þetta sé tímabundin ráðstöfun. „Við höfum ekki ákveðið hvað þetta varir lengi. Þetta er lifandi plagg eins og sagt er,“ segir hann. Ómögulegt að segja til hvort að staðan verði svona þar til það fæst niðurstaða í hryðjuverkamálið eða breyting verði gerð fyrr.

Að auki er lögreglan að breyta hættustigakvarða sínum, úr 4 stiga kvarða yfir í 5. Karl Steinar segir að þetta hafi legið fyrir í talsverðan tíma. Öll hin Norðurlöndin, að Finnlandi utanskyldu, hafa 5 stiga kvarða.

Ísland er staðsett á stigi 3 sem er það sama og í Noregi og Svíþjóð, lægra en í Danmörku en hærra en í Færeyjum og Grænlandi.

„Þessi hætta er kannski há miðað við það sem hún hefur verið. En við metum sem svo að hér sé til staðar ásetningur og eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka,“ segir Karl Steinar aðspurður um hvort að þetta sé ekki bísna hátt fyrir litla Ísland. Þetta er einnig byggt á áðurnefndu hryðjuverkamáli.

Deginum eftir að mennirnir voru látnir lausir tilkynnti Ríkislögreglustjóri að „ákveðið viðbragð“ væri í gangi. Karl Steinar staðfestir að þessar breytingar séu þetta viðbragð en ekkert meira standi til.

Eftir tilkynninguna í dag dró Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannsins, tilganginn í efa í viðtali við DV. „Þetta er greinilega spurning um eitthvert stolt hjá ríkislögreglustjóra. Þetta er bæði sóun á almannafé og aðgerð sem gerir ekkert annað en að vekja upp ótta hjá fólki með kvíðaröskun,“ sagði Sveinn Andri við DV.

Karl Steinar tekur fyrir þetta. „Lögregla hefur ákveðna ábyrgð og skyldur gagnvart öryggi almennings,“ segir hann. „Við tökum allar okkar ákvarðanir byggðar á þeim gögnum sem við höfum í höndunum og okkur ber að gera það, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Við kjósum að nálgast alla þá sem við erum í samvinnu við út frá fagmennsku og okkur ber að upplýsa almenning um stöðuna. Það er okkar hlutverk og við gerum það hvort sem einhverjum verjanda þykir það fáránlegt eða ekki. Hann verður þá að búa við það í sinni einsemd.“