Stjórn Lands­sam­bands lög­reglu­manna lýsir yfir þungum á­hyggjum af öryggi lög­reglu­manna í ljósi liðinna at­burða. Lög­reglu­menn minna á fyrri yfir­lýsingar sínar um þörfina á um­tals­verðri fjölgun lög­reglu­manna og aukinni þjálfun þeirra. Þetta kemur fram í til­kynningu frá stjórn LL.

„Á þessa stað­reynd hefur verið bent og hafa skýrslur ríkis­lög­reglu­stjóra fjallað um þessi at­riði sem leið að auknu öryggi í sam­fé­laginu. Stað­reyndin er sú að í dag er allt of hátt hlut­fall ó­fag­lærðra lög­reglu­manna við störf í út­kalls­liði lög­reglu sem hafa hvorki heimild né hafa öðlast þjálfun til að nota öll þau tæki sem lög­regla býr yfir. Hluti af út­kalls­liði lög­reglu eru nemar sem eru skemur á veg komnir í al­mennri þjálfun lög­reglu­manna,“ segir í til­kynningunni.

„Hafa verður í huga að al­mennir lög­reglu­menn, héraðs­lög­reglu­menn og af­leysinga­menn eru oftast fyrsta við­bragð í út­kalli á vett­vang. Ótti um eigið öryggi er veru­legur og þessi störf sem áður þóttu spennandi í al­mennri lög­gæslu þykja nú lítt eftir­sóknar­verð sökum hættu­eigin­leika og starfs­á­lags á­samt því sem laun eru í engu sam­ræmi við á­byrgð og álag í starfi,“ segir þar

Í ljósi at­burða síðustu daga, vikna og jafn­vel ára er brýn nauð­syn á að skipu­leggja til fram­tíðar fjölgun lög­reglu­manna og hvernig best sé að við­halda þeim fjölda, þekkingu og reynslu innan hinna ýmsu deilda lög­reglu, og þá kannski sér­stak­lega í al­mennri lög­gæslu, því það eru lög­reglu­mennirnir sem iðu­lega koma fyrstir að öllum málum.

„Þá teljum við að sú um­ræða sem hefur verið í fjöl­miðlum um raf­varnar­búnað sem búnað í al­mennri lög­gæslu tengist ekki at­burðum sl. daga en hins vegar þarf að skoða slíkan búnað gagn­gert til þess að tryggja öryggi lög­reglu­manna, en hafa ber í huga að til slíks búnaðar verður ekki gripið þegar skot­vopnum er beitt.“

Þá telur LL enn fremur mikil­vægt að ráðast í vinnu við greiningar á laga­um­hverfi með það að mark­miði að styrkja mögu­leika lög­reglu til rann­sókna þannig að lög­regla hér á landi sé ekki eftir­bátur og hafi yfir að ráða sam­bæri­legum heimildum og lög­regla í ná­granna­ríkjum, og sé þannig betur í stakk búin til að bregðast við skipu­lagðri glæpa­starf­semi.

„Með öllu er ó­við­unandi að Ís­land búi ekki yfir sam­bæri­legum heimildum, t.d. til gagna- og upp­lýsinga­skipta og ná­granna­löndin, og hætta er á að Ís­land sitji eftir í réttar­þróun sem veikur hlekkur meðal ríkja í bar­áttu gegn skipu­lagðri brota­starf­semi, gegn net­glæpum og annarri brota­starf­semi sem þrífst þvert á landa­mæri.“