Stjórn Sálfræðingafélags Íslands (SÍ) hefur þungar áhyggjur af skipulagsbreytingum á sálfræðiþjónustu innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem gerðar voru þann 22. mars síðastliðinn. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem Sálfræðingafélagið sendi fjölmiðlum. Er þar helst vísað til þess hvernig staða fagstjóra sálfræðiþjónustu heilsugæslunni var lögð niður.

„Stjórn SÍ telur það áhyggjuefni hve ólíkur skilningur sálfræðinga og stjórnenda HH er á því hvað felist í aðkomu sálfræðinga að skipulagi sálfræðiþjónustu og að sama skapi hve ólík upplifun þessa aðila er á stöðu sálfræðiþjónustu hjá HH,“ stendur í tilkynningunni. „Sálfræðingafélag Íslands vísar í fyrri yfirlýsingu sína sem á jafn vel við í dag og þá.“

„Það var verið að breyta skipulagi innan heilsugæslunnar og við vorum að benda á að við hefðum áhyggjur af því,“ segir Tryggvi Ingason, formaður Sálfræðingafélagsins, í samtali við Fréttablaðið. „Það sé mjög mikilvægt að það sé sálfræðingur sem leiðir faglega vinnu hverrar stéttar.“

Tryggvi segir að SÍ hafi upphaflega lýst yfir áhyggjum vegna breytinganna í mars og segir að hrakspár þeirra yfir breytingunum hafi ræst í ljósi aukinnar óánægju sálfræðinga hjá heilsugæslunni. Margir þeirra kvarti yfir því að ekki sé hlustað á þá eða tillögur þeirra og þessi óánægja hafi kristallast í pistlinum „Sálfræðiþjónusta á krossgötum“ sem birtist hjá Vísi á þriðjudaginn.

Í yfirlýsingu SÍ er sagt að breytingarnar hjá HH komi til með að bitna á þjónustu við almenning. „Er um mikla afturför geðheilbrigðisþjónustu að ræða og sterkar líkur á að draga muni úr aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð.“