Krabba­meins­fé­lagið og Brjósta­heill lýsa í á­skorun yfir þungum á­hyggjum af því hvernig bið­tíma eftir frekari skoðunum í kjöl­far skimana eftir brjósta­krabba­meinum hefur lengst. Jafn­framt er lýst á­hyggjum af löngum bið­tíma sem getur verið eftir við­tali hjá skurð­læknum.

Á mál­þingi sem haldið var fyrr í vikunni í til­efni af Bleika mánuðinum með yfir­skriftinni „Þú ert ekki ein“ var einnig skorað á fram­kvæmda­stjórn Land­spítalans og heil­brigðis­ráð­herra að stytta bið­tíma eftir sér­skoðunum þegar grunur vaknar um brjósta­krabba­mein.

Fram kemur á heima­síðu Krabba­meins­fé­lagsins að brjósta­krabba­mein er al­gengasta krabba­meinið sem greinist hjá ís­lenskum konum. Þar segir að meðal­tali greinist um 210 konur á ári með brjósta­krabba­meini og er meðal­aldur við greiningu um 62 ár. Sjúk­dómurinn er til­tölu­lega sjald­gæfur undir 40 ára en þó greinar um tíu konur ár hvert fyrir fer­tugt. Karlar geta einnig fengið brjósta­krabba­mein en um 1 karl greinist á móti hverjum 100 konum.

Al­mennt gildir að því fyrr sem brjósta­krabba­mein greinist, þeim mun betri eru lífs­horfur. Í heildina hafa horfur sjúk­linga farið batnandi og hlut­falls­leg fimm ára lifun er góð eða um 90 prósent.

Skorað á spítala og yfirvöld að setja málin í forgang

Í á­skorun Krabba­meins­fé­lagsins og Brjósta­heilla kemur fram að í evrópskum gæða­við­miðum EUREF (European Reference Organ­is­ation for Qu­ality Assured Breast Cancer Screening) segi að vakni grunur um krabba­mein í reglu­bundinni skimun, skuli tími í frekari skoðun liggja fyrir innan 5 virkra daga, en að á þessu ári hafi bið­tími kvenna hjá Land­spítalanum verið að meðal­tali 35 almanaks­dagar.

Þar er því skorað á fram­kvæmda­stjórn Land­spítalans og yfir­völd að setja þessi mál í for­gang „þegar í stað þannig að bið­tími verði ekki lengri en við­mið EUREF segja til um. Þetta er ó­á­sættan­leg staða”.

„Það er al­gjör­lega ó­við­unandi staða fyrir konur að svo langur tími líði frá því að þær mæta í skimun þar til þær eru kallaðar inn í frekari skoðun. Enda er það raunin að oft kemur inn­köllunin þeim al­ger­lega í opna skjöldu. Á þessu þarf nauð­syn­lega að finna varan­lega lausn“ segir Brynja Björk Gunnars­dóttir, for­maður Brjósta­heilla – Sam­hjálpar kvenna, í sam­eigin­legri til­kynningu frá sam­tökunum.

Fréttablaðið/Getty

Viljum vera í toppi

Halla Þor­valds­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krabba­meins­fé­lagsins, telur lík­legt að nokkrir þættir, eins og mann­ekla og skipu­lag, hafi saman á­hrif á það hvers vegna biðin sé svo löng hjá spítalanum, en tekur fram að spítalinn þurfi auð­vitað að svara fyrir það.

„En það er eigin­lega alveg sama hver á­stæðan er. Það er þannig að við viljum vera í toppi. Það þarf fleiri staðla og gæða­við­mið til að tryggja að þjónusta sé nógu góð og árangur verði nógu góður. Þetta er eitt af því sem að skiptir máli í þessu,“ segir Halla í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Skimun fyrir brjósta­krabba­meini hefst að venju við 40 ára aldur hjá konum á Ís­landi. Þær eru þá kallaðar í mynda­töku hjá Krabba­meins­fé­laginu.

„Ef að það er ekkert að, sem oftast er, þá er ekkert haft sam­band við þig. Því á nú samt að fara að breyta núna þannig að allar konur fái raf­ræn skila­boð inn á is­land.is,“ segir Halla.

Hún segir að í dag sjái Krabba­meins­fé­lagið um skimunar­mynda­tökur og að engin bið sé hjá þeim.

„Hjá fé­laginu er búið að lesa úr myndunum eftir fimm daga. Það er engin bið þar. Ef þú ferð úr mynda­töku þá ættirðu að geta gert ráð fyrir því að svarið væri komið inn eftir fimm daga. En ef það hins vegar er eitt­hvað að, það er ein­hver skuggi eða minnsti grunur, þá ertu kölluð inn aftur og það á að gerast innan fimm daga frá því að þú færð niður­stöðu, en að meðal­tali á þessu ári hafa liðið 35 dagar hjá Land­spítalanum. Það þýðir auð­vitað að sumar konur hafa beðið lengur en aðrar skemur,“ segir Halla.

Konur hafi ekki vitað að eitthvað er að - og það komi þeim því á óvart

Hún á­réttar þó að í þessum til­vikum þá séu konurnar í raun ekki að bíða heima því þær hafi ekki vitað að eitt­hvað er að.

„En það þýðir að þegar þær fá sím­talið eru þær veru­lega hissa og mjög margar hrökkva illa í kút. Sumar þeirra auð­vitað greinast með krabba­mein og þá er rosa­lega stutt í hugsunina um hvað þær hafi lengi verið með það og allar þær á­hyggjur sem fylgja því,“ segir Halla.

Hún segir að það skipti miklu máli að grípa meinin snemma og að það sé ekki að á­stæðu­lausu sem við­miðin eru sett.

„Þetta eru evrópsk við­mið og hér á Ís­landi höfum við í gegnum tíðina staðið okkur vel. Það hafa ekki verið bið­tímar og fólk fengið hraða þjónustu, en þessar mælingar benda til þess að það sé að breytast,“ segir Halla.

Brýnt að breyta þessu

Hún segir mjög brýnt að breyta þessu og að við­miðin verði sett og að fólki sem komi í skoðun séu þau ljós.

„Þegar þú kemur í skoðun þá viltu vita hvernig ferlið er og hve­nær það fái upp­lýsingar ef það er eitt­hvað að. Hve­nær það geti vitað að ekkert sé að, eða hver næstu skref eru. Það ætti ekkert að vera svo flókið fyrir okkur að koma því á,“ segir Halla.

Hún segir að góð reynsla sé á Norður­löndum af svo­kölluðum „kræft­pakker“ eða krabba­meins­prógrömmum þar sem öll ferli eru stöðluð og þeim þannig ætlað að flýta fyrir greiningu og með­ferð og koma í veg fyrir ó­þarfa bið­tíma.

„Um leið og það vaknar grunur um að þú sért með krabba­mein, sama hvaða tegund það er, það sé þá tekið al­var­lega,“ segir Halla.

Það sé lýst fyrir fólki hvert ferlið er og hvaða daga­fjöldi er á milli rann­sókna. Leiðin fyrir verðandi sjúk­linga sé þannig teiknuð upp þannig þau viti hvað tekur við hjá þeim og til að tryggja að það verði ekki ó­þarfa bið þegar fólki fellur á milli skips og bryggju.

„Þetta er eitt­hvað sem við þurfum að herða okkur í hér á landi því að krabba­meinstil­vikum mun fjölga svo rosa­lega á næstunni. Fyrst og fremst vegna þess að þjóðin er að eldast. En við verðum að búa okkur til nógu góð ferli sem virka. Við getum ekki gert hlutina af ein­hverri til­viljun,“ segir Halla að lokum.

Á­skorun fé­laganna í heild sinni er hægt að finna hér á heima­síðu Krabba­meins­fé­lagsins.