Þjóðir heims hafa sóað tækifærum sínum til að setja af stað umfangsmiklar loftslagsaðgerðir í kjölfar Covid-19 faraldursins og útlit er fyrir að hitastig á jörðinni hækki um 2,7 gráður á öldinni ef fram heldur sem horfir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, Emissions Gap Report 2021: The Heat Is On.

Í skýrslunni kemur fram að ný og endurskoðuð landsmarkmið ríkja heims í aðdraganda COP26, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, nægja ekki til þess að uppfylla ákvæði Parísarsáttmálans.

Nýju markmiðin fela aðeins í sér 7,5 prósenta aukalegan niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda miðað við fyrri skuldbindingar. Hins vegar er þörf á 30 prósenta niðurskurði til að ná markmiði Parísarsáttmálans um 2 gráðu hlýnun jarðar og 55 prósenta niðurskurði til að ná markmiðinu um 1,5 gráður.

„Það er farið að hitna í kolunum og rétt eins og innihald skýrslunnar sýnir er forystan sem við þurfum fjarri. Víðs fjarri,“ segir António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna

„Lönd eru að sólunda gífurlegum tækifærum til að fjárfesta Covid-19 efnahags- og viðspyrnustyrki í sjálfbærum, sparnaðardrifnum aðgerðum til að bjarga heiminum. Á meðan þjóðarleiðtogar undirbúa sig fyrir COP26 þá er þessi skýrsla enn ein þrumandi viðvörunarbjallan. Hversu margar slíkar þurfum við?“