Rúm­lega sex­tíu ein­staklingar hafa setið fastir á bar einum í ó­byggðum Bret­lands síðan á föstu­dags­kvöld. Margt bendir til þess að hópurinn þurfi að dvelja á barnum þar til á morgun.

Barinn, Tan Hill Inn, er stundum kallaður „hæsti bar Bret­lands“ þar sem hann stendur nokkuð hátt yfir sjávar­máli. Á föstu­dag fóru fram tón­leikar með Oasis-á­breiðu­bandinu Noasis en á meðan á tón­leikunum stóð kyngdi niður snjó á svæðinu.

Það er skemmst frá því að segja að kol­ó­fært hefur verið á svæðinu undan­farna daga. Veður á Bret­lands­eyjum var víða slæmt um helgina og gerði stormurinn Arwen í­búum víða lífið leitt, einkum á norður­hluta Eng­lands.

Vegir urðu ó­færir og þá féllu raf­magns­línur á vegi skammt frá um­ræddum bar í Yorks­hire Dales.

Ef marka má færslur á sam­fé­lags­miðlum hafa stranda­glópar stytt sér stundirnar með ýmsum að­ferðum síðustu daga. Boðið hefur verið upp á spurninga­keppnir og karaókí á barnum og þá verður blásið til keppni um flottasta snjó­karlinn í dag.

Nicola Town­send, fram­kvæmda­stjóri Tan Hill Inn, segir við breska blaðið Guar­dian að allir á staðnum hafi reynt að gera sem best úr þessum erfiðu að­stæðum. „Hér eru allir orðnir mjög góðir vinir,“ segir hann.

Starfs­fólk Tan Hall Inn er ýmsu vant þegar kemur að veðri og vindum á svæðinu. Árið 2013 sátu fjórir gestir og nokkrir starfs­menn fastir á barnum í fimm daga vegna mikillar snjó­komu á svæðinu.

Kolófært hefur verið á svæðinu undanfarna daga.
Mynd/Tan Hill Inn