Íslensk yfirvöld hafa rætt við fleiri aðila en Pfizer um aðgengi að bóluefni sem myndi tryggja hjarðónæmi gegn COVID-19 hér á landi. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag og vísar í heimildir sínar.
Eins og greint var frá á dögunum hafa Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir rætt við Pfizer um að fá nokkur hundruð þúsund skammta af bóluefni í tilraunaskyni. Kári sagði við mbl.is á föstudag að viðræðurnar virtust ekki ætla að skila árangri.
Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að það muni ráðast í vikunni hvort viðræður við Pfizer skili árangri en á sama tíma er einnig rætt við aðra framleiðendur bóluefna, þó þær viðræður séu komnar skemmra á veg. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist enn ráðgera að meirihluti Íslendinga verði bólusettur um mitt þetta ár.