Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson lögðu nokkrar spurningar fyrir frambjóðendur í komandi Alþingiskosningum í Vikunni hjá Gísla Marteini í kvöld.
Spurningin sem sannarlega stóð upp úr var einföld: Hefurðu prófað eiturlyf?
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Inga Sæland, formaður Flokks fólkins og Fjóla Hrund Björnsdóttir hjá Miðflokknum svöruðu neitandi.
„Nei, ég hef ekki einu sinni tekið svefnpillu,“ sagði Inga Sæland.
En Glúmur Baldvinsson oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Auðunsson í Sósíalistaflokknum svöruðu játandi.
„Ég hef prófað að reykja gras,“ svaraði Glúmur.
„Ég hef aldrei keypt mér ólögleg eiturlyf en ég hef tekið sko smók þegar ég var á háskólaárunum en það var ekkert meira en það,“ sagði Bjarni Ben.
„Stutta svarið er já já,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við: „Ég vona að börnin mín séu ekki að horfa á.“
„Vímuefni?“ spurði Halldóra Mogensen og bætti svo við: „Já já, það hef ég gert.“
„Já, ég hef gert það. Ég var nú býsna lélegur hass-reykingamaður. Það hentaði mér betur að sötra brennivín í kók,“ sagði Logi Einarsson.
„Ég hef prófað kannabis,“ viðurkenndi Guðmundur í Sósíalistaflokknum.