Ís­land hefur nú tekið við þremur fjöl­skyldum frá Afgan­istan en tvær fjöl­skyldur komu hingað til landsins um helgina í gegnum Kaup­manna­höfn og tengjast Al­þjóð­legum jafn­réttis­skóla Gró. Í gær­kvöldi kom síðan önnur fjöl­skylda hingað til landsins í gegnum London.

„Þetta eru allt í allt tíu manns sem hafa komið hingað til lands,“ segir Sveinn Guð­mars­son, upp­lýsinga­full­trúi utan­ríkis­ráðu­neytisins, í sam­tali við Frétta­blaðið en um­ræddir ein­staklingar höfðu fengið dvalar­leyfi hér á landi.

Eins og staðan er núna er enginn á leiðinni hingað til lands frá Afgan­istan en ís­lenskur ríkis­borgari sem var í Afgan­istan á vegum NATO er nú farinn úr landi. Ekki er vitað um neina ís­lenska ríkis­borgara sem eru enn staddir í Afgan­istan. Í heildina hefur borgara­þjónustan hjálpað 33 að komast til Ís­lands.

Stendur enn til að taka á móti allt að 120 manns

Ríkis­stjórnin greindi frá því síðast­liðinn þriðju­dag að þau höfðu fallist á til­lögur flótta­manna­nefndar um að taka við allt að 120 manns frá Afgan­istan í sam­starfi við utan­ríkis­þjónustu annarra landa. Sú tala er þó að­eins við­mið í ljósi töðunnar og ljóst að það gæti reynst erfitt að koma fólki úr landi.

„Þessi á­kvörðun ríkis­stjórnarinnar um að taka móti allt að 120 manns hún stendur auð­vitað alveg,“ segir Sveinn að­spurður um hvort það standi til að taka á móti fleirum en hann segir það aftur á móti erfitt að að­stoða fólk við að komast úr landi.

Flóttamannanefnd er nú stöðugt að funda og meta stöðuna, en nefndin fundaði nokkrum sinnum í síðustu viku og mun halda áfram í vikunni. Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu eru ekki komnar fastmótaðar tillögur um næstu skref en verið er að undirbúa komu fleiri einstaklinga.

Stöðugt að meta stöðuna

Banda­ríkja­her mun koma til með að yfir­gefa Afgan­istan á morgun og munu þau því ekki lengur hafa stjórn á al­þjóða­flug­vellinum í Kabúl. Leið­togar G7 ríkjanna höfðu hvatt Joe Biden Banda­ríkja­for­seta til að semja við Talí­bana um frekari frest en Talí­banar neituðu því al­farið og sögðust ætla að grípa til „við­eig­andi ráð­stafana“ ef Banda­ríkja­her verður ekki farinn eftir 31. ágúst.

Verulega hefur hægt á brottflutningi Bandaríkjahers frá flugvellinum í Kabúl en eldflaugum var skotið að vellinum í morgun og var flugskeytavarnarkerfi Bandaríkjahers virkjað þannig skaðinn var minniháttar.

Sveinn vísar þó til þess að Talí­banar hafi lýst því yfir að þeir muni ekki stoppa er­lenda ríkis­borgara vilji þeir fara úr landi eða ef þeir eru með yfir­lýsingar frá ríkjum að þau megi koma. „Það á bara eftir að koma í ljós hvernig það fer. Þannig eins og sakir standa þá bara bíðum við á­tekta,“ segir Sveinn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma til með að funda síðar í dag um stöðuna í Afganistan. Að því er kemur fram í frétt CNN um málið er áætlað að ráðið muni kjósa um hvort það verði kallað eftir sérstakri öryggisleið fyrir þá sem vilja fara frá Afganistan.