Íslendingar, Norðmenn og Bretar hafa nú náð samkomulagi sem tryggir óbreytt fyrirkomulag tolla og viðskipta yfirgefi Bretar Evrópusambandið án samnings.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í samtali við Fréttablaðið að hann sé ánægður með að búið sé að ná þessum samningi, en tekur þó fram að um sé að ræða skammtímalausn.

„Ég er mjög ánægður með samstarfið við Breta í tengslum við þetta og annað sem snýr að Brexit. En þetta er hins vegar skammtímasamningur og það sem við erum að undirbúa er langtímasamningur við Breta,“ segir Guðlaugur Þór og bætir við:

„Við vorum búin að ganga frá fyrir löngu öðrum samningum um réttindi borgara. Það sem var eftir snerti viðskiptin,“ segir Guðlaugur Þór. Hann segir að með þessum samningi sé nú búið að tryggja það fyrirkomulag líka, sama hvort Bretar gangi úr sambandinu með eða án samnings.

Hann segir að Íslendingar hafi samið við Breta með Norðmönnum og nokkuð sé síðan samningar náðust meðal Íslendinga og Breta. Hann hafi beðið eftir því að Norðmenn kláruðu sína samninga, sem gerðist svo í dag.

Hann segir að fulltrúar beggja ríkja muni halda áfram að tala saman og hafi það markmið í viðræðum sínum að tryggja gott framtíðarfyrirkomulag eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu.

Guðlaugur segir að innihald samningsins verði kynnt bráðlega en búið sé að kynna bæði ríkisstjórn og utanríkismálanefnd innihald hans og stöðu mála.