Efling lagði í dag fram stjórnsýslukæru til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Félagið krefst þess í kærunni að tillagan verði felld úr gildi og að réttaráhrifum miðlunartillögunnar verði frestað meðan á meðferð kærunnar stendur.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá félaginu. Þar kemur fram að málsástæður kærunnar séu skortur á samráði við Eflingu auk þess sem bent er á skort á réttmæti, meðalhófi og jafnræði við töku ákvörðunarinnar, og er þar vísað bæði til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Að lokum er bent á vanhæfi ríkissáttasemjara sem þau segja að vegna framgöngu sinnar geti ekki talist óvilhallur í deilunni.

Eins og greint hefur verið frá í dag var félagið í héraðsdómi í dag vegna beiðni ríkissáttasemjara um að afhenda sér kjörskrá félagsins svo hægt sé að framkvæma atkvæðagreiðslu vegna miðlunartillögunnar. Efling fékk til föstudags til að skila greinargerð í málinu en eftir hádegi sama dag fer fram munnlegur málflutningur í málinu.