Í nokkur ár hefur Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, barist fyrir því að fá upplýsingar um hverjir keyptu fullnustueignir Íbúðalánasjóðs. „Ég óskaði fyrst eftir þessum upplýsingum árið 2017 og fyrirspurn sem nú var loks svarið er sú sjöunda sem ég hef lagt fram,“ segir Þorsteinn. Hann segir að undanbrögð og feluleikur hafi einkennt vinnubrögð Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Vill rannsaka sölu eigna gaumgæfilega

Í gær bárust síðan loks langþráð svör við fyrirspurn Þorsteins. Ítarleg greinargerð um söluferli íbúðanna sem og listar yfir einstaklinga og fyrirtæki sem keyptu eignirnar af Íbúðalánasjóði.

„Ég tel fullt tilefni til þess að rannsaka gaumgæfilega hverjir hafa hagnast á sölu þessara eigna,“ segir Þorsteinn. Þar sem listarnir eru nú aðgengilegir á vef Alþingis segist Þorsteinn óska eftir liðsinni allra sem til þekkja að rannsaka söluna. „Ég myndi fagna skilaboðum um eignir sem seldar hafa verið á óeðlilegu verði. Það vita best þeir sem áttu þær,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að ráðherra hafi fullyrt að eignirnar hafi verið seldar á markaðsvirði en en að mörg dæmi séu um að sú fullyrðing haldi ekki vatni.

copy-heimavellir.jpg

Heimavellir seldu allar eignir Leigufélagsins Stefnis

Högnuðust um 266 milljónir króna

Dæmi um slíkt er Leigufélagið Stefnir ehf. sem keypti 31 íbúð á Suðurnesjum af Íbúðalánasjóði í tveimur skrefum. Fyrst 23 íbúðir um mitt ár 2016, fyrir alls 267,5 milljónir króna, og síðan 8 íbúðir í febrúar 2017, alls fyrir 163 milljónir króna. Heildarkaupverð eignanna var því var 430,5 milljónir króna. Reyndar er eitthvað misræmi í gögnum Íbúðalánasjóðs því í fréttatilkynningu í maí 2016 er greint frá því að fyrirtækið hafi keypt tveimur íbúðum meira, alls 33 íbúðir á 476 milljónir króna.


Þessar íbúðir voru síðan seldar með um 266 milljón króna hagnaði, aðallega á næstu tveimur árum en þá voru þær komnar í eigu leigurisans Heimavalla. Rétt er að benda á að vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðsins hækkaði um rúm 15% á ári frá 2016 til 2018 en sú hækkun skýrir eingöngu brot af hagnaðinum. Þá hefur Fréttablaðið ekki upplýsingar um að ráðist hafi verið í umtalsverðar endurbætur fasteignanna sem geti skýrt mikla hækkun.

Aðeins ein eign óseld

Leigufélagið Stefnir var yfirtekið af Heimavöllum í byrjun árs 2017 og var nafni þess breytt í Heimavellir XVII ehf. Fyrri íbúðarpakkinn, sem innihélt 23 íbúðir, fór þegar í söluferli. Fyrsta íbúðin var seld um mitt ár 2017 og seldust flestar eignirnar það ár sem og árið 2018. Síðustu eignirnar seldust árið 2019 en ein eign er óseld. Eins og áður segir voru íbúðirnar 23 keyptar á 267,5 milljónir króna en heildar söluandvirði þeirra er um 434 milljónir króna. Ekki lá fyrir þinglýstur kaupsamningur af einni eign og því var söluandvirði tveggja eigna áætlað miðað við sambærilegar eignir. Miðað við það var söluhagnaðurinn um 166,5 milljónir króna.

Seinni íbúðarpakkinn, alls átta íbúðir, var eins og áður segir keyptur af Leigufélaginu Stefni ehf. í byrjun árs 2017 á 163 milljónir króna en þá var félagið að öllum líkindum í eigu Heimavella. Fasteignirnar voru þegar í stað fluttar yfir í annað félag sem hafði verið í eigu sömu aðila en hafði einnig verið keypt af Heimavöllum, Tjarnarverk ehf. Félagið var á þessum tíma nokkuð umdeilt, ekki síst vegna frétta um að félagið hafði hækkað húsaleigu um 40 prósent með stuttum fyrirvara.

Rúmu ári síðar, í maí 2018 voru sjö eignir seldar en sú síðasta seldist í byrjun árs 2020. Aðeins sex kaupsamningar eru aðgengilegir en samkvæmt þeim var söluverðið 227 milljónir króna. Ætla má að söluverði hinna tveggja íbúðanna hafi ekki verið undir 40 milljónum króna og því högnuðust Heimavellir um rúmlega 100 milljónir króna á eignunum átta

Í heildina hagnaðist því Leigufélagið Stefnir, sem keypt var af Heimavöllum, um 266 milljónir króna á nokkrum árum af eignum sem félagið keypti af Íbúðalánasjóði á meintu markaðsvirði.