Ís­lensk erfða­greining hefur nú greint um fjöru­tíu stökk­breytingar af kóróna­veirunni sem veldur sjúk­dómnum CO­VID-19 en þetta kemur fram í frétt Ríkis­út­varpsins um málið. Þá hafi Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, greint frá því að einn hafi greinst með tvenns konar af­brigði veirunnar hér á landi.

„Við fundum ein­stak­ling sem var með tvenns konar veiru, annars vegar veiruna með á­kveðinni stökk­breytingu og hins vegar veiruna án þeirrar stökk­breytingar. Þeir sem hann smitaði síðar, voru allir bara með veiruna með stökk­breytingunni,“ sagði Kári í sam­tali við RÚV. Hann bætti við að það gæti verið til­viljun en að það gæti einnig þýtt að stökk­breytta veiran væri ill­vígari.

Ríkisútvarpið hefur það eftir Kára að stökk­breytingarnar séu sér­ís­lenskar og finnist ekki í er­lendum gagna­söfnum. Í sam­tali við danska miðilinn Information sagði Kári að við greiningu veirunnar væri hægt að rekja hvaðan smit koma. Til að mynda væri hægt að rekja sýni til Austur­ríkis, Ítalíu og Eng­lands.

Sam­kvæmt upp­lýsingum á vef­síðunni co­vid.is eru 588 manns smitaðir af veirunni og hafa um 10.300 sýni verið tekin. Ekki hefur tekist að skima jafn mikið og áður fyrir veirunni hjá Ís­lenskri erfða­greiningu vegna skorts á sýna­tökupinnum.