Lyfjastofnun Evrópu, EMA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að möguleg tengsl séu á milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca, sem nú ber nafnið Vaxzevria, og fágætra blóðtappa. Að því er kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni ætti að flokka myndun blóðtappa sem mjög sjaldgæfa aukaverkun af bólusetningu.
Emer Cooke, forstjóri EMA, greindi frá niðurstöðunum á blaðamannafundi í dag en þar ítrekaði hún að ávinningurinn af bólusetningu væri áfram metinn meiri en áhættan. Fólk ætti þó að vera meðvitað um að það væri möguleiki á myndun blóðtappa og blæðingarvandamála innan við tveggja vikna frá bólusetningu.
Mögulegt að sterkt ónæmissvar sé skýringin
Tilkynningar sneru að blóðtöppum í æðum heilans (e. cerebral venous sinus thrombosis, CVST), í kviðholi (e. splanchnic vein thrombosis, SVT), og í slagæðum en samhliða því var magn blóðflagna einnig minnkað, svokallað blóðflagnafæð.
Nefnd stofnunarinnar skoðaði sérstaklega 62 tilfelli um blóðtappa í heila, CVST, og 24 tilfelli um blóðtappa í kviðholi, SVT, en af þeim tilfellum var að ræða átján dauðsföll.
Mögulegt er að skýringin fyrir aukaverkunum sé sterkt ónæmissvar sem leiðir til sjúkdóms sem er svipaður og sá sem sést þegar sjúklingar frá lyfið heparin (e. heparin induced thrombocytopenia, HIT). Verið er að rannsaka það nánar.
Áður óljóst hvort um orsakasamband væri að ræða
Lyfjastofnun Evrópu hefur undanfarnar vikur rannsakað bóluefni AstraZeneca eftir að tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir, þar á meðal myndun blóðtappa, komu upp. Sérfræðinganefnd stofnunarinnar greindi frá því þann 18. mars síðastliðinn að engar sannanir væru fyrir því að um orsakasamband væri að ræða en þó væri ekki hægt að útiloka það.
Yfirmaður bólusetningaráætlunar EMA, Marco Cavaleri, greindi síðan frá því í gær að það væru skýr tengsl milli bólusetningar með bóluefni AstraZeneca og myndun blóðtappa en ekki væri ljóst hvað valdi. Lyfjastofnun Evrópu sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að stofnunin hafi ekki komið að endanlegri niðurstöðu.
Emer Cooke, EMA's Exec. Director: "The #PRAC, after an in-depth analysis, has concluded that the reported cases of unusual blood clots following vaccination with AstraZeneca #COVID19vaccine should be listed as possible side effects of the vaccine.”
— EU Medicines Agency (@EMA_News) April 7, 2021
Sabine Straus, PRAC Chair: “Although most of the cases occurred in people under 60 years and in women, due to different ways the vaccine in being use in different countries, the #PRAC did not conclude that age and gender were clear risk factors for these very rare side effects.”
— EU Medicines Agency (@EMA_News) April 7, 2021