Björgunarsveitir hafa fundið bíl mannsins sem er týndur. Þetta staðfestir Friðrik Jónas Friðriksson, stjórnandi aðgerða í Höfn

Lögreglan á Suðurlandi boðaði í gær út allar björgunarsveitir í Austur-Skaftafellssýslu og á Austurlandi til leitar að manni í Stafafellsfjöllum í Lóni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að aðstoða við leitina en einnig hefur verið notast við dróna og sporhunda.

Útvíkka leitarsvæðið

Til stendur að útvíkka leitarsvæðið og hafa allar sveitir frá Selfossi að Egilsstöðum verið kallaðar út. Farið er að birta en gul viðvörun verður í gildi í dag vegna austan storms.

„Það er jákvætt að það er farið að birta en það verður rok og rigning í dag,“ segir Friðrik.

Þungi í leitinni í alla nótt

„Það hefur verið þó nokkur þungi í leitinni í alla nótt. Það voru hópar þarna af Suð­austur­landi sem hófu leit strax í gær­kvöldi og síðan bættist við fleira fólk af Austur­landinu,“ segir Davíð Már Bjarna­son, upp­lýsinga­full­trúi Slysa­varna­fé­lagsins Lands­björg.

„Það hafa verið þó nokkur fjöldi af fólki að leita í alla nótt. Það kom spor­hundur úr Reykja­vík með þyrlu gæslunnar um mið­nætti sem var líka við leit í nótt,“ segir Davíð.

Óskað var eftir að­stoð björgunar­sveita um átta í gær­kvöldi. Um seinni part nætunnar eða um morguns­árið, á bilinu fimm til sjö, fóru fyrstu hóparnir í hvíld og bættust við leitar­hópar frá Suður­landi.

„Þannig það er ferskur ó­þreyttur mann­skapur sem hefur leit núna þegar það er að birta,“ segir Davíð.

„Það er búið að vera bætast svo­lítið í mann­skapinn bæði frá Austur­fjörðum og Suður­landi. Þannig núna er búið að boða út allar björgunar­sveitir á Suður­landi og Austur­landi í þetta verk­efni. Það hafa einnig fleiri hundar bæst í verk­efnið.“

Þyrla gæslunnar er á Höfn og bíður á­tekta eftir betri að­stæðum til að taka þátt í leitinni að sögn Davíðs.

„Hún var ekki að leita seinni­part nætur því það var svo lág­skýjað,“ segir Davíð.

Leitin er í fullum gangi enn­þá.

Leitað er mannsins við Stafafellsfjöll.
Kort