Rannsakendur reyna nú að komast að því hvað varð til þess að Boeing 737-800NG vél flugfélagsins China Eastern hrapaði lóðbeint niður í vikunni í fjallendi í suðurhluta Kína. Vélin var á leið frá Kunming til Guangzhou en China Eastern missti samband við vélina yfir borginni Wuzhou. Alls voru 132 um borð í vélinni þegar hún hrapaði, 123 farþegar og níu starfsmenn, en þau eru öll talin látin.
Á vef Al Jazeera kemur fram að annar svartur kassi vélarinnar hafi fundist en að enn sé leitað að hinum svarta kassa vélarinnar. Í þeim fyrri sem fannst er að finna upptökur frá flugmanni sem geta nýst til að skilja hvað gerðist betur. Í fréttinni kemur fram að kassinn hafi verið í nokkuð góðu standi og að hann hafi verið sendur til Peking til rannsóknar. Líklegt er að upplýsingarnar sem þar eru geti varpað ljósi á samskipti flugmannanna þriggja í aðdraganda þess að vélin hrapaði. Tveir flugmennirnir voru mjög reynslumiklir en sá þriðji var með til að læra og fylgjast með.
Samkvæmt kínverska miðlinum China Daily eru um tvö þúsund manns sem sinna leitaraðgerðum og hafa við leit fundist ýmsir persónulegir munir frá farþegum vélarinnar, eins og veski, farmiðar og skilríki. Svarta box vélarinnar fannst í fyrradag og var sent til frekari rannsóknar.
Leit hefur þó gengið erfiðlega þar sem um er að ræða fjalllendi og aðgengi takmarkað. Íbúar á svæðinu hafa nýtt mótorhjól til að fara með vistir og búnað að leitarsvæðinu.
Drónar hafa verið notaðir við leitina en leitarsvæðið er gífurlega stórt, eða um 680 þúsund fermetrar, samkvæmt China Daily.

Hrapaði beint niður
Í erlendum miðlum segir að sérfræðingar í flugi séu hissa á því hvernig vélin hrapaði en hún var í miðju flugi. Algengast er að flugslys eigi sér stað við flugtak eða í lendingu. Á myndböndum af hrapi vélarinnar sést að hún hrapaði beint niður, afar hratt. Vitni hafa sagt vélina hafa algerlega brotnað í sundur og leitaraðilar hafa ekki fundið neina á lífi.

Forveri 737-MAX
Eins og fram kemur komið var vélin af gerðinni Boeing 737-800NG sem er ein vinsælasta vél Boeing. 737-800NG eru í raun forverar 737-MAX vélanna en eins og þekkt er hröpuðu tvær slíkar vélar stuttu eftir flugtak vegna bilunar árin 2018 og 2019 með þeim afleiðingum að 346 létu lífið.
Í kjölfar slyssins hefur China Eastern kyrrsett allar þeirra vélar af sömu gerð en um 1.200 slíkar vélar hafa verið seldar til Kína. Samkvæmt vef New York Times eru alls um 4.200 slíkar vélar í umferð í öllum heiminum.