Ís­lensk erfða­greining hefur fundið hundrað og þrjá­tíu stökk­breytingar af kórónu­veirunni sem hafa ekki fundist utan Ís­lands. Þetta kemur fram í helgar­við­tali Frétta­blaðsins við Kára Stefáns­son, for­stjóra Ís­lenskrar erfða­greiningar sem vakið hefur mikla athygli.

„Ég veit ekki hvað getur kallast margar stökk­breytingar, en þessi veira stökk­breytist mjög mikið. Við höfum fundið hundrað og þrjá­tíu stökk­breytingar sem ekki hafa fundist utan Ís­lands, en það þýðir ekki endi­lega að þær sé ekki að finna utan Ís­lands. Við höfum rað­greint svo miklu meira en allir aðrir,“ segir Kári. „Við höfum rað­greint yfir 370 veirur á meðan allur heimurinn saman­lagt hefur rað­greint 1.000. Það er ekkert ó­lík­legt að eitt­hvað af þessum stökk­breytingum finnist utan Ís­lands ef menn rað­greina meira,“ segir hann enn fremur.

Hann segist ekki vera með svarið því hvað það þýðir fyrir fram­gang sjúk­dómsins að hann stökk­breytist svo ört. Bæði komi til greina að stökk­breytingar veirunnar hafi engin á­hrif eða þær geri hana meira smitandi eða grimmari.

Í við­talinu hvetur hann jafn­framt Ís­lendinga til að leggja sitt að mörkum til að draga úr út­breiðslu veirunnar. „Það er sumt sem við getum gert: Við getum þvegið á okkur hendurnar, haldið svo­lítilli fjar­lægð og verið heima hjá okkur eins mikið og hægt er. Við getum lifað heil­brigðu lífi, borðað vel og hreyft okkur og svo fram­vegis. Þegar maður er búinn að því þá er þetta bara í höndum þessa guðs sem heitir til­viljun.“

Hér að neðan má lesa við­talið við Kára í heild sinni.