„Þetta er mjög spennandi og virkilega áhugaverður staður,“ segir Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur, en hún fer fyrir fornleifauppgreftri á Stjórnarráðsreitnum í Reykjavík. Tilgangur uppgraftarins er að kanna mannvistarleifar á lóð Stjórnarráðsins vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu.

Uppgröfturinn hófst í september í fyrra og hafa ýmsar fornminjar nú þegar komið í ljós. Vegfarendur sem eiga leið um svæðið geta til dæmis rekið augun í eitthvað sem líkist hlöðnum steinvegg. Aðspurð um hvaða fornminjar sé að ræða segir Vala að fundist hafi drenlögn sem líklega sé frá árinu 1870.

„Við bjuggumst alveg við því að finna einhvers konar lagnir hérna af því hér stóð stórt hús með kjallara en það sem er óvanalegt er hversu mikið er lagt í drenið. Að það sé ekki bara hola í jörðinni eða skurður,“ segir Vala og telur ástæðuna fyrir dreninu veglega tvíþætta. „Húsið var í miklum halla hérna og hér bjó landshöfðingi svo þetta er mjög veglegt. Þetta er alveg tvöföld grjóthleðsla og mjög fallegt mannvirki,“ útskýrir hún.

„Við höfum til dæmis rekist á tvær hrossagrafir sem eru frá nítjándu öld.“

„Við erum búin að rífa burt hús hér sem var byggt árið 1904 og við byggingu þess var það, sem var hér fyrir, nýtt sem grunnur fyrir hluta hússins. Nú höldum við áfram að grafa og erum farin að sjá glitta í eitthvað eldra hérna,“ segir Vala og bætir við að um sé að ræða vegg sem við fyrstu sýn virðist vera frá því fyrir árið 1500.

„Ég sé gjósku frá 1226 í torfinu en ég sé ekki gjósku frá árinu 1500 svo það er vísbending um að þetta sé eldra en allt annað sem er hérna, en ég þarf að skoða þetta betur,“ segir hún. Þá segir Vala að ýmislegt hafi komið í ljós við uppgröftinn á Stjórnarráðsreitnum sem hún hafi ekki búist við að finna.

„Það er alls konar sem fylgir mönnunum og er ekki skráð, við höfum til dæmis rekist á tvær hrossagrafir sem eru frá nítjándu öld,“ segir hún. „Hestarnir hafa verið felldir og svo grafin hola sem þeir voru settir í, bara í miðjum íbúðargarði.“

Enn er unnið að því að grafa upp bein hrossanna en farið verður í að skoða þau betur eftir helgi. „Við látum beinin liggja aðeins eins og staðan er núna, en holurnar eru mjög djúpar,“ segir Vala.

Uppgröfturinn stendur yfir næstu tvo mánuði og segir Vala virkilega spennandi að sjá hvað leynist á svæðinu þegar grafið verður enn dýpra. Að uppgreftrinum loknum er áætlað að skrifstofubygging rísi á svæðinu og að fornminjarnar verði fjarlægðar.

Vala Garðarsdóttir, fornleifafræðingur.