Landstjórn ákvað fyrr í dag að óska eftir skýrslum frá öllum yfirkjörstjórnum um framkvæmd talningar í ljósi þeirra mistaka sem komu upp í Norðvesturkjördæmi en óskað var eftir því að skýrslurnar myndu berast fyrir klukkan átta í kvöld.
Vísir hefur það þó eftir Kristínu Edwald, formanni landskjörstjórnar, að nú rétt eftir klukkan níu í kvöld hafi stjórninni aðeins borist skýrslur úr þremur kjördæmum. Von væri á fleirum síðar í kvöld eða á morgun en stjórnin mun boða til fundar á morgun þegar allar skýrslur hafa skilað sér.
Í frétt mbl.is er það haft eftir Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur, ritara landskjörstjórnar að von væri á gögnum frá öllum kjördæmum í kvöld, fyrir utan Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Gögnin frá þeim kjördæmum munu koma á morgun. Í Suðurkjördæmi er það vegna þess að endurtalning stendur enn yfir en í Norðvesturkjördæmi er það af „persónulegum ástæðum formanns“ að því er kemur fram í frétt mbl.is.
Boða til fundar á morgun
Kristín greindi frá því í samtali við Vísi að hún hafi aðeins náð að fara yfir eina skýrslu í kvöld, skýrsluna frá Suðvesturkjördæmi, en að hún sýni að framkvæmdin þar hafi verið til fyrirmyndar. Landskjörstjórn muni síðan fara yfir hinar skýrslurnar á fundi sínum á morgun.
Auk þess sem óskað var eftir skýrslum frá öllum yfirkjörstjórnum var óskað eftir sérstökum skýrslum frá yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi, þar sem mistök komu í ljós við endurtalningu, og í Suðurkjördæmi, þar sem endurtalning fer nú fram. Að sögn Kristínar á hún von á að þær skýrslur muni koma seinast.
Fréttin hefur verið uppfærð.