Erna Kristín Brynjarsdóttir og maður hennar Benedikt Hjalti Sveinsson misstu allt sitt í eldsvoða sem kviknaði út frá eldavél á heimili þeirra við Grænásbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Eldurinn geysaði einungis í klukkutíma en náði á þeim stutta tíma að brenna allt þeirra innbú.

Mikill samhugur í samfélaginu

Söfnunarátak fyrir hjónin og börn þeirra fór strax af stað. Þeim hefur borist margvíslegur stuðningur allt frá fjárframlögum, húsgögnum og fatnaði til heillar íbúðar sem ókunnugur maður bauð þeim til afnota á meðan hann væri erlendis.

„Þetta hefur gengið mjög, það er allir svo góðir,“ segir Erna um þá söfnun sem hefur átt sér stað síðan eldsvoðinn gleypti heimilið „Það er margir búnir að hjálpa okkur fjölskyldunni mikið,“ sagði hún en hjónin hafa fundið fyrir miklum samhug í samfélaginu síðan bruninn átti sér stað.

Íbúð Ernu og Benedikts er gjörónýt
Mynd/aðsend

Eru enn í áfalli

Þau dvelja nú hjá móður Ernu Kristínar á meðan þau koma aftur undir sig fótunum. Aðspurð um líðan sína og fjölskyldunnar segir hún að þau séu enn í áfalli. „Það eru náttúrulega bara tveir dagar síðan þetta gerðist og maður getur mjög lítið sofið og vaknar mikið þar sem maður er svo stressaður,“ segir hún. Líðan barnanna segir hún að sé góð en hún og maður hennar hafi ekki sagt börnunum mikið frá atburðunum en börnin eru tveggja og þriggja ára og hafa því takmarkaðan skilning á aðstæðum

„En þau finna þetta samt á sér“ segir Erna.

Allir innanhúsmunir og innbú fórst í eldsvoðanum.
Mynd/aðsend

Aðspurð um það hvort hægt verði að flytja í íbúðina aftur segir Erna að svo sé ekki „Það er allt ónýtt og allt út í sót og ógeðsleg lykt þarna inni, þetta er bara allt horfið, allar eigur okkur og munir eru farnir, það verður að hreinsa allt þarna út“ segir Erna.