Fyrir­tækið Kræsingar hefur fengið 112 milljónir króna greiddar í skaða­bætur frá Mat­væla­stofnun vegna „nauta­böku­málsins“ sem upp kom árið 2013.

Morgun­blaðið greinir frá þessu í dag. Lögð var fram kæra um vöru­svik í nauta­bökum vegna rann­sóknar Mat­væla­stofnunar sem lögð var niður og fékk fyrir­tækið skaða­bóta­skyldu Mast viður­kennda fyrir héraðs­dómi og Hæsta­rétti. Deilt hefur verið um fjár­hæð skaða­bóta en upp­hæðin sveiflaðist frá 69 milljónum og upp í rúmar 200 milljónir.

Kjötlausar kjötbökur

Að­dragandi málsins var sá að frétt var birt á vef­síðu Mat­væla­stofnunar um kjöt­lausar kjöt­bökur og hafði málið al­var­legar af­leiðingar fyrir fyrir­tækið. Sam­kvæmt inni­halds­lýsingu átti nauta­bakan að inni­halda 30% nauta­hakk í fyllingu. Þá kom einnig fram í fréttinni að lamba­hakks­bollur frá sama fram­leiðanda, sem sagðar voru inni­halda lamba- og nauta­kjöt, hefðu einungis inni­haldið lamba­kjöt.

Héraðs­dómur Reykja­víkur komst að þeirri niður­stöðu að Gæða­kokkar hafi borið á­byrgð á því að nauta­bökurnar sem rann­sakaðar voru hefðu ekki inni­haldið nauta­kjöt í sam­ræmi við inni­halds­lýsingu en þrátt fyrir það var það mat dóm­stólsins að til­kynningin hefði með beinum hætti haft al­var­legar af­leiðingar fyrir fyrir­tækið.

Hefðu átt að kynna niðurstöðurnar til fyrirtækisins

Í dómnum var sagt að ætlast hefði mátt til að frekari rann­sóknar yrðu fram­kvæmdar áður en fréttin hefði verið birt og sömu­leiðis að fréttin hafi ekki verið efnis­lega rétt. Þá hefði stofnunin átt að kynna niður­stöður rann­sóknanna fyrir fyrir­tækinu áður en þær voru birtar opin­ber­lega.

Magnús Níels­son, eig­andi fyrir­tækisins, sam­þykkti að lokum 69 milljónir og með vöxtum og kostnaði sem Mast tók þátt í varð upp­hæðin 112 milljónir.

„Þetta var klárað fyr­ir jól, er jóla­­­gjöf­in mín það árið. Ég hef gert upp við alla þá birgja sem stóðu með mér í erfið­leik­un­um og biðu með kröf­ur sín­ar,“ seg­ir Magnús Ní­els­­son, eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins í Morg­un­blaðinu í dag.