Fyrirtækið Kræsingar hefur fengið 112 milljónir króna greiddar í skaðabætur frá Matvælastofnun vegna „nautabökumálsins“ sem upp kom árið 2013.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. Lögð var fram kæra um vörusvik í nautabökum vegna rannsóknar Matvælastofnunar sem lögð var niður og fékk fyrirtækið skaðabótaskyldu Mast viðurkennda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Deilt hefur verið um fjárhæð skaðabóta en upphæðin sveiflaðist frá 69 milljónum og upp í rúmar 200 milljónir.
Kjötlausar kjötbökur
Aðdragandi málsins var sá að frétt var birt á vefsíðu Matvælastofnunar um kjötlausar kjötbökur og hafði málið alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið. Samkvæmt innihaldslýsingu átti nautabakan að innihalda 30% nautahakk í fyllingu. Þá kom einnig fram í fréttinni að lambahakksbollur frá sama framleiðanda, sem sagðar voru innihalda lamba- og nautakjöt, hefðu einungis innihaldið lambakjöt.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Gæðakokkar hafi borið ábyrgð á því að nautabökurnar sem rannsakaðar voru hefðu ekki innihaldið nautakjöt í samræmi við innihaldslýsingu en þrátt fyrir það var það mat dómstólsins að tilkynningin hefði með beinum hætti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið.
Hefðu átt að kynna niðurstöðurnar til fyrirtækisins
Í dómnum var sagt að ætlast hefði mátt til að frekari rannsóknar yrðu framkvæmdar áður en fréttin hefði verið birt og sömuleiðis að fréttin hafi ekki verið efnislega rétt. Þá hefði stofnunin átt að kynna niðurstöður rannsóknanna fyrir fyrirtækinu áður en þær voru birtar opinberlega.
Magnús Níelsson, eigandi fyrirtækisins, samþykkti að lokum 69 milljónir og með vöxtum og kostnaði sem Mast tók þátt í varð upphæðin 112 milljónir.
„Þetta var klárað fyrir jól, er jólagjöfin mín það árið. Ég hef gert upp við alla þá birgja sem stóðu með mér í erfiðleikunum og biðu með kröfur sínar,“ segir Magnús Níelsson, eigandi fyrirtækisins í Morgunblaðinu í dag.