Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar HÍ að Keldum, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur séu á að alvarleg afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum sem nú eru farnir að streyma til landsins.

Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant.MAST hefur því sett fjölmargar reglur um smitvarnir þar sem kemur fram að fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.

Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla og hús og gerði skulu fuglaheld. Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.

Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, sem framleiðir Holtakjúkling, segir að allir séu rólegir enn þá en verið sé að vinna í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Guðmundur Svavarsson, framkvæmdastjóri Reykjagarðs, sem framleiðir Holtakjúkling, segir að allir séu rólegir enn þá en verið sé að vinna í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hvergi í heiminum lagt meira upp úr heilbrigði kjúklinga

„Það er meðal annars verið að passa upp á að það myndist ekki aðstæður fyrir villta fugla til að búa sér til hreiður, eins og starra til dæmis. Að þeir komist ekki nálægt húsunum í rifur eða göt þar sem þeir gætu komið sér upp hreiður.“

Hann bendir á að strangt gæðaeftirlit sé með kjúklingaframleiðslu hér á landi og hvetur alla til að borða sem mest af kjúkling. „Ég get fullyrt að það er hvergi í heiminum lagt meira upp úr öllum sýnatökum og heilbrigði af kjúklingi en hér á landi.Það fer enginn kjúklingur á markað frá okkur fyrr en það liggur fyrir neikvæð sýnataka er varðar salmonellu.“

Í nýjum reglum MAST er meðal annars fjallað um að farga skuli öllum úrgangi úr fuglahúsum þannig að ekki stafi smithætta af honum fyrir alifugla og aðra fugla. Guðmundur bendir á að það sem verði eftir í vinnslu Reykjagarðs til manneldis fari aftur út í náttúruna. Hluti fer í loðdýrafóður en fiður og annað fer í Orkugerðina, fyrirtæki sem Reykjagarður á.

„Þar er framleitt áburðarmjöl og fita sem verksmiðjan er keyrð áfram á. Hún notar ekki olíu eða aðkeypta orku nema lítils háttar rafmagn. Umframfitan býr til lífdís­il og mjölið fer í skógrækt og landgræðslu og uppgræðslu á örfoka landi. Ekkert er urðað sem fellur til. Þetta verður allt að gróðri sem hefur reynst vel, í Hekluskógum meðal annars.“