Áfallateymi geðþjónustu Landspítalans hefur ekki nægan mannskap til að veita öllum aðstandendum sálrænan stuðning.

Áfallateymið hefur fengið 143 tilvísanir um áfallahjálp í kjölfar ofbeldis það sem af er ári. Þetta er hluti þess sálræna stuðnings og áfallahjálpar sem veitt er á Landspítala af ólíkum starfsstéttum.

„Því miður erum við samt ekki með aðgengi að formlegum sálrænum stuðningi og áfallahjálp fyrir alla sem það vilja, við höfum einfaldlega ekki tök á að veita slíka þjónustu,“ segir Agnes Björg Tryggvadóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði og teymisstjóri Áfallteymis við Landspítalann.

Hún segir að alls ekki allir þurfi formlegan sálrænan stuðning eða áfallahjálp í kjölfar áfalla. „En þarna má auðvitað gera betur þótt okkur sé sniðinn þröngur stakkur með þetta út af takmörkuðum fjárveitingum,“ segir hún.

Meirihluti vill bæði kristilegan og veraldlegan valkost

Fréttablaðið greindi frá umræðu sem hefur skapast um sálsgæslu og áfallahjálp en fjölmargir kvarta yfir því að einungis prestar sinni sálgæslu hjá Landspítalanum. Formaður Siðmenntar segist hafa heyrt ítrekað í gegnum árin að fólk afþakki aðstoð presta og biðji um eitthvað annað en fái svo ekkert.

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir Siðmennt er aðeins lítill minnihluti sem telur að bjóða ætti eingöngu upp á kristilega sálgæslu, eða 3,2 prósent. Stór meirihluti, eða 79 prósent, vill að Landspítalinn bjóði upp á bæði kristilegan og veraldlegan valkost þegar kemur að sálgæslu.

„Þau geta sára sjaldan veitt aðstandendum þjónustu; hafa bara ekki mannskap í það.“

Berglind Guðmundsdóttir, yfirsálfræðingur sálfræðiþjónustu Landspítala segir það koma fyrir að þolendur óski eftir að fá sálrænan stuðning frá annarri fagstétt en prestum en að það komi ekki oft fyrir. Ekki er til nákvæmar tölur um hve oft.

„Þjónustan getur verið ólík eftir eðli áfalla eða þeirri þungbæru lífsreynslu sem þjónustuþegi hefur orðið fyrir. Starfsmenn víða á spítalanum veita sálrænan stuðning í starfi sínu. Það getur verið breytilegt hver er talin viðeigandi til að veita þjónustu út frá því samhengi,“ segir Berglind.

Ekki nægur mannskapur

Prestar og djáknar á Landspítala sinna sálgæslu til að liðsinna þeim sem glíma við sárar tilfinningar og erfiðar tilvistaspurningar tengdar veikindum og alvarlegum áföllum.

Sértæk áfallahjálp í kjölfar kynferðisofbeldis, heimilisofbeldis og annarskonar ofbeldis er veitt af áfallateymi geðþjónustu.

Agnes Björg teymisstjóri segir eðlilegt að eiga samtal um hvaða þjónusta ætti að vera í boði og fyrir hvern. „Við skiljum vel þá gagnrýni að skrýtið sé að ekkert sé í boði afþakki maður aðkomu prests. En að sama skapi eru til dæmis þau í áfallateymi geðþjónustunnar í þeirri stöðu að þau geta sára sjaldan veitt aðstandendum þjónustu; hafa bara ekki mannskap í það.“