Borið hefur verið kennsl á líkams­leifar sem fundust í sorp­brennslu­stöð í græn­lenska bænum Illu­lissat fyrir rúmri viku síðan. Jan Lambert­sen, sem fer með rann­sókn málsins hjá lög­reglu, segir hinn látna vera 24 ára gamlan heima­mann. Full­víst þykir að hann hafi verið myrtur.

Látni maðurinn hét Maassann­gu­aq Dalager og í frétt frá Græn­lenska ríkis­út­varpinu segir að á­kvörðunin um að birta nafn hans hafi verið tekin í sam­ráði við ættingja hans, meðal annars af því að há­vær orð­rómur hafi þegar verið kominn á kreik um hvern væri að ræða. Lög­regla biðlar til al­mennings um að­stoð og upp­lýsingar sem gætu komið að gagni við rann­sókn málsins.

Karl og kona hafa verið á­kærð, grunuð um aðild að morðinu. Karl­maðurinn situr enn í gæslu­varð­haldi en konan var látin laus. Morðið hefur bæði vakið mikla at­hygli og óhug meðal bæjar­búa í Illu­lissat og á Græn­landi öllu, enda fremur ó­hugnan­legt.

Þegar líkams­leifarnar fundust í Illu­lissat þar síðasta föstu­dag voru þær svo illa leiknar að starfs­maður sorp­brennslu­stöðvarinnar var í fyrstu ekki viss um að þær væru af manni. Svo reyndist þó vera og við leit á sorp­brennslu­stöðinni fundust fleiri hlutar af hinum látna.

Dánar­or­sök liggur ekki fyrir

Lög­regla segir ljóst að ein­hver kunnings­skapur hafi verið á milli hans og hinna á­kærðu, en kveðst ekki vita hvers eðlis sá kunnings­skapur var.

„Bara að það var kunnings­skapur. Þau sáust saman áður. En hvort um er að ræða vin­skap eða lausari tengsl það er eitt­hvað sem við gætum þurft hjálp frá fólki við að skýra út núna,“ segir Jan Lambert­sen.

Lög­reglan hefur heldur ekki viljað gefa upp mögu­legar á­stæður fyrir ill­virkinu og dánar­or­sök liggur enn ekki fyrir. Þó þykir full­víst að and­látið hafi borið að með sak­næmum hætti. Að­spurður um hvernig rann­sókn málsins miði á­fram segir Lambert­sen.

„Ég get bara sagt að við erum að komast þangað en okkur vantar líka hjálp frá í­búum við að komast að því hvort það gæti hafa verið á­setningur fyrir morðinu.“