Lög­reglan í Noregi greindi frá því fyrr í dag að lík barns sem fannst fyrr á árinu í sjónum ná­lægt Karmøy á ný­árs­dag hafi verið af hinum fimm­tán mánaða gamla Artin Irannez­had. Málið vakti at­hygli í Noregi þar sem engin börn sem pössuðu við lýsinguna höfðu verið til­kynnt til lög­reglu sem týnd.

Að því er kemur fram í frétt NRK um málið var Artin af írönskum ættum en hann hvarf síðast­liðinn októ­ber á­samt fjöl­skyldu sinni þegar skip sem þau voru um borð í sökk í Ermar­sundi. Þau höfðu þá verið á leið frá Frakk­landi til Bret­lands eftir að hafa flúið Íran í ágúst 2020.

Fjölskylda Artin lést síðastliðinn október þegar skip með þau um borð sökk skammt frá Frakklandi.

Lög­regla bar loks kennsl á drenginn með því að bera saman erfða­efni hans við ættingja hans í Noregi en þau höfðu áður fengið á­bendingu um fjöl­skyldu Kúrda sem fórst í októ­ber og að kannski hafi Artin tengst þeim.

Líkams­leifar for­eldra Artin, þeirra Rasoul Iran-Nejad og Shiva Mohammad Panahi, fundust loks eftir að skipið sökk, auk syst­kina Artin, hinnar níu ára gömlu Anitu og sex ára Armin, en líkams­leifar Artin fundust þá ekki.

Ættingjar fjöl­skyldunnar höfðu lýst yfir sorg og ruglingi yfir því að vita ekki hvað varð um Artin en að því er kemur fram í frétt BBC um málið verða líkams­leifar Artins nú fluttar til Íran svo hann geti verið grafinn.