Lögreglan í Memphis í Bandaríkjunum hefur birt upptökur úr líkamsmyndavél sem sýnir fimm lögreglumenn beita Tyre Nichols, 29 ára karlmann, hrottalegt ofbeldi við handtöku. Í upptökunni má einnig heyra Nichols kalla á eftir móður sinni en árásin átti sér stað aðeins nokkrum metrum frá heimili hennar.

Daily Mail greinir frá en þar má sjá upptökuna sem er vægast sagt sláandi. Lögreglustjórinn í Memphis segir myndefnið það versta sem hún hafi orðið vitni að.

Fimm lögreglumenn ákærðir

Nichols, sem er dökkur á hörund, var á leið heim til sín þann 7. janúar síðastliðinn þegar fimm lög­reglu­menn, sem allir einnig eru dökkir á hörund, stöðvuðu hann við um­ferðar­eftir­lit.

Hann reyndi í fyrstu að flýja af vett­vangi en svo þegar lög­regla reyndi að hand­taka hann urðu átök þeirra á milli. Hann var í kjöl­farið fluttur á spítala eftir að hann hafði kvartað undan því að ná ekki andanum.

Nichols lést á spítalanum þremur dögum eftir árásina og hafa lögreglumennirnir fimm verið ákærðir fyrir manndráp, stórfellda líkamsárás, mannrán og brot í starfi.

Joe Biden Bandaríkjaforseti bað íbúa í Tennesse í Memphis að halda friðsamleg mótmæli í gær í kjölfar birtingar upptökunnar. Myndbandið er í heild um klukkustund og er úr líkamsmyndavélum lögreglumanna sem komu að handtöku Nichols.

Ætla verjast ásökunum

Lög­reglu­mennirnir fimm sem ákærðir hafa verið vegna málsins eru: Tadarrius Bean, Demetrius Haley, Desmond Mills Jr, Emmi­tt Martin III og Justin Smith.

Þeir voru allir ráðnir í lög­regluna á síðustu sex árum en voru reknir í síðustu viku og færðir í fangelsi í gær.

Lög­maður tveggja þeirra segir þá ætla að verjast á­sökunum og að enginn hafi ætlað þessu að enda með þessum hætti.

Tyre Nichols var 29 ára gamall en hann lést þremur dögum, 11. janúar, eftir hrottalegt ofbeldi af hálfu lögreglumanna í Tennessee í Memphis í byrjun janúar.
Fréttablaðið/Getty Images
Fjöldi fólks boðaði til mótmæla eftir andlát Tyre Nichols.
Fréttablaðið/Getty Images
Joe Biden Bandaríkjaforseti bað íbúa í Tennessee um að halda aðeins friðsamleg mótmæli.
Fréttablaðið/Getty Images