Lögreglan á Norðurlandi varar ferðamenn við vegum landsins í viðtali við fréttastofu AP News. Í grein sem birt var á vef þeirra fyrr í dag er greint frá því að ein ástæða mikils fjölda ferðamanna á Íslandi séu norðurljósin og að einn besti staðurinn til að sjá þau sé á norðanverðu landinu.

Í viðtali við miðilinn segir Jóhannes Sigfússon yfirmaður lögreglunnar á Akureyri að mörgum ferðamönnum skorti hæfni og reynslu til að keyra á vegum á Íslandi í vetrarfærð og að að lögreglan hafi miklar áhyggjur af því að ökumenn séu samtímis að keyra og svipast um eftir norðurljósum.

„Veðrið breytist á fimm mínútna fresti á Íslandi, þannig séð, og færð vega í samræmi við það,“ segir Jóhannes í samtali við AP News. Hann segir auk þess hættan verða enn meiri um miðja nótt, í myrkri þegar fólk hafi ekki sofið nægilega vel eða mikið.

Lögreglan greinir frá því að þau hafi jafnvel mætt ferðamönnum sem aki án ljósa svo þau sjái norðurljósin betur þegar þau keyri. Þá segir lögreglan að slys hafi orðið þegar ferðamenn snarhemli á þjóðveginum þegar þau sjái norðurljós. Þegar þau hemli sé keyrt aftan á þau.

Í fréttinni segir að af þeim átján einstaklingum sem létust í bílslysum hérlendis á síðast ári hafi helmingur þeirra verið ferðamenn.

Greinina er hægt að lesa hér á veg AP News í heild sinni.