Réttað verður yfir Donald Trump Banda­ríkja­for­seta innan öldunga­deildar Banda­ríkja­þings síðar í dag en málið verður tekið fyrir klukkan 18 að ís­lenskum tíma. Leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildarinnar, Mitch McConnell, birti í gær hvernig mál­flutningi verður háttað innan deildarinnar og verður kosið um á­kvörðunina síðar í dag.

Þing­mennirnir sjö sem koma til með að flytja málið gegn Trump munu hafa 24 klukku­tíma, dreift yfir tvo daga, til þess að kynna málið innan öldunga­deildarinnar og mun máls­varnar­aðilar for­setans hafa jafn langan tíma. Á­kvörðun McConnell hefur verið harð­lega gagn­rýnd þar sem mál­flutningur mun dragast fram á nótt með þessu fyrir­komu­lagi.


Kjósa um hvort leyfa megi vitni og sönnunargögn

Repúblikanar eru ef­laust að reyna að flýta málinu innan öldunga­deildarinnar en til saman­burðar fengu máls­varnar­aðilar í málinu gegn Bill Clin­ton 24 klukku­tíma dreift yfir fjóra daga. Þar sem Repúblikanar eru í meiri­hluta innan öldunga­deildarinnar er lík­legt að á­kvörðunin um mál­flutnings­tíma verði sam­þykkt.

Þegar báðar hliðar hafa lokið sínum mál­flutningi verður kosið um hvort hægt verði að leggja fram vitnis­burð eða sönnunar­gögn en ein­faldan meiri­hluta þarf til að sam­þykkja eða hafna slíkri kröfu. Ef vitnis­burður verður leyfður er það lík­legt að Demó­kratar kalli eftir því að hátt settir aðilar innan Hvíta hússins beri vitni, sem gæti reynst skað­legt fyrir Trump.


Gætu vísað málinu frá strax

Trump var form­lega á­kærður til em­bættis­missis 18. desember síðast­liðinn en full­trúa­deildin af­henti öldunga­deildinni á­kærurnar í síðustu viku. For­seti full­trúa­deildarinnar, Nan­cy Pelosi, greindi frá því að hún hafi beðið með að senda á­kærurnar þangað til hún gæti verið viss um að málið færi fram á réttan hátt.

Demó­kratar hafa haldið því fram að Repúblikanar séu að reyna að koma í veg fyrir að sönnunar­gögn líti dagsins ljós en eftir að Trump var á­kærður hafa nýjar upp­lýsingar komið fram. Til að mynda komst ríkis­endur­skoðun Banda­ríkjanna (e. GAO) að þeirri niður­stöðu að Trump hafi brotið lög með því að halda aftur fjár­hags­að­stoð til Úkraínu.

Mögu­legt er að réttar­höldin dragist í nokkrar vikur en Repúblikanar hafa þann mögu­leika að vísa málinu strax frá þar sem að­eins þarf ein­faldan meiri­hluta til þess. Repúblikanar hafa þó gefið það út að þeir séu and­vígir slíkri að­ferð og því gæti málið tekið lengri tíma.

Frétt CNN um málið.