Hættusvæði umhverfis gosstöðvar hefur verið uppfært vegna breytinga á gosvirkni í Geldingadölum. Breytingin gildir til 10. maí.

Eins og greint hefur verið frá þá breyttist virknin í gosinu um helgina og eru nú öflugir kvikustrókar þar sem ná nú 200 til 300 metra hæð yfir yfirborð og mynda gjósku sem berst frá gosupptökum en 5 til 15 sentímetra bombur hafa fundist nokkur hundruð metra frá virkum gíg.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að líkanreikningar úr módelinu Eject (eftir Mastin) og upplýsingar úr mörkinni hafa verið notuð til að draga útlínur nýs hættusvæðis þar sem bombur úr kvikustrókum geta verið lífshættulegar.

Hættusvæði af völdum bomba er metið 400 metra radíus umhverfis gíg í logni og radíus eykst í 650 metra ef vindur er 15 metrar á sekúndu. Gjóskufall fylgir vindátt og minni korn geta fallið utan skilgreinds hættusvæðis 3.

Kort af nýju hættusvæði má sjá hér að neðan á ensku og íslensku.

Mynd/Veðurstofan
Mynd/Veðurstofan