Ríkis­lög­reglu­stjóri, í sam­ráði við lög­reglu­stjórann á Austur­landi og Veður­stofu Ís­lands, lýsti yfir hættu­stigi vegna skriðu­falla á Seyðis­firði seint í gær­kvöldi. Um 120 manns yfir­gáfu heimili sín í gær og er enn talin hætta á skriðu­föllum.

Hættu­stigi er lýst yfir ef ef að heilsu og öryggi manna, um­hverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða manna­völdum. Næsta stig þar fyrir ofan er neyðar­stig.

Gripið var til þessara að­gerða til þess að draga úr líkum á slysum á fólki, en enn má búast við eigna­tjóni. Í til­kynningu sem al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra sendi frá sér rétt fyrir mið­nætti kom fram að enn gangi aur úr skriðu­sárinu í Botnum sem hefur náð inn í bæinn. Skriða féll um tíu­leytið í gær­kvöld en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum.

Ó­vissu­stigi vegna skriðu­hættu var lýst yfir á Aust­fjörðum í gær og er það enn í gildi. Mikið hefur rignt á Austur­landi undan­farna daga og er jarð­vegur í neðri hluta hlíða orðinn vatns­mettaður. Skriður hafa fallið neðar­lega í hlíðum á Eski­firði, Seyðis­firði og við utan­verðan Fá­skrúðs­fjörð. Spáð er á­fram­haldandi NA-átt með úr­komu.