Vegna af­leiðinga ó­veðursins er hættu­stig al­manna­varna enn í gildi á Ströndum, Norður­landi vestra og Norður­landi eystra og enn eru truflanir á raf­magns­dreifingu víða um land. en fjölda­hjálpar­stöðvum á Siglu­firði og Ólafs­firði sem opnaðar voru eftir ó­veðrið seinustu daga, hefur verið lokað. Níu­tíu manns leituðu til stöðvarinnar á Ólafs­firði, en enginn á Siglu­firði. Ekki kemur fram hvort og þá hversu margir hafi leitað á fjölda­hjálpar­stöðina á Dalvík en vegna ótryggs rafmagns verður hún opin enn um sinn. Þetta kemur fram í skýrslu al­manna­varnar­deildar Ríkis­lög­reglu­stjóra, sem send var út nú síð­degis.

Björgunarsveitarmenn kanna ástand á bónabæum

Í skýrslunni segir að tuttugu björgunar­sveitar­menn hafi gist í Gler­ár­kirkju og fleiri hafi komið þangað í morgun­mat. Alls hafa 489 björgunar­sveitar­menn verið að störfum á Norð­vestur- og Norð­austur­landi og segir í skýrslunni að búist sé við að þeir verði að störfum næstu daga.
Raf­magn er komið á flesta bæi á Norður­landi, en tekið er fram að dreifing þess sé enn ó­trygg. „Björgunar­sveitir hafa farið á bæi til að kanna á­stand hjá fólki og við dreifingu og upp­setningu vara­afls­stöðva hjá bændum. Nú eru björgunar­sveitir að að­stoða bændur við að loka húsum og við leit að bú­fénaði víða á Norður­landi,“ segir í skýrslunni. Þá sér varðskipið Þór Dalvík fyrir rafmagni

Fjöl­margir björgunar­sveitar­menn hafa að sama skapi verið við leit að drengnum sem féll í Núpá.

Útsjónarsemi starfsfólks skipti sköpum

Flestir far­síma­sendar Símans eru tengdir vara­afli og í starf­semi. Hins vegar eru fimm­tán sendar á vegum Voda­fone ó­virkir vegna raf­magns­leysis og björgunar­sveitar­menn að­stoða fjar­skipta- og orku­fyrir­tæki við að koma þjónustu í lag.

Í skýrslunni segir að þó að­stæður hafi verið krefjandi vegna raf­magns­leysis á heil­brigðis­stofnunum, hafi ekki verið til­kynnt um al­var­leg at­vik af sökum þess. „Út­sjónar­semi starfs­fólk var lykil­at­riði í því að svo vel tókst til.“
Heil­brigðis­stofnunum hafi að mestu leyti tekist að sinna þjónustu við þá sem búa heima við en þurfa á þjónustu að halda. Að­stoð björgunar­sveitar­manna hafi einnig skipt sköpum við að halda uppi heil­brigðis­þjónustu.

Tekur nokkra daga að koma raforkukerfinu í lag

Þjóðar­öryggis­ráð kom saman í gær vegna af­leiðinga veðursins. Í frétt á vef Stjórnar­ráðsins segir að á fundinum hafi verið „farið yfir af­leiðingar veðursins, stöðu mála og næstu skref.“ Ljóst er að mikið tjón hefur orðið um allt land, en í skýrslu al­manna­varna segir að ná­kvæmar upp­lýsingar hafi ekki enn borist. Unnið sé að því að koma bæði raf­orku- og fjar­skipta­kerfum í lag en „ljóst er að það mun taka nokkra daga að koma raf­magns­flutninga­kerfinu í lag.“