Klukkan 21 tekur gildi hættu­stig vegna snjó­flóða á Seyðis­firði. Rýma þarf tvo reiti, númer 4 og 6, undir Strandar­tindi. Á­kveðið hefur verið að rýma hús á reitum 4 og 6 undir Strandar­tindi yst í sunnan­verðum Seyðis­firði, vegna hættu á votum snjó­flóðum. Greint er frá þessu í tilkynningu frá Ofanflóðavakt Veðurstofunnar.

Á reitunum er aðal­lega að finna í­búðar­hús­næði en einnig eru þar ein­hver í­búðar­hús að sögn Sveins Brynjólfs­sonar á ofan­flóða­vakt Veður­stofunnar.

„Ó­vissu­stig er á­fram og hættu­stigið og rýmingar­á­ætlun tekur gildi klukkan 21. Þessir reitir voru ekki rýmdir í desember, þar var ekki talin skriðu­hætta,“ segir Sveinn.

Reitina má sjá á myndinni hér að neðan. Hægt er að skoða kortið betur hér.

Svæðin eru yst í bænum.
Mynd/Veðurstofan

Blautur snjór í fjallshlíðinni

Í til­kynningu Veður­stofunnar kemur fram að tölu­verður snjór sé í fjalls­hlíðum á Seyðis­firði og að í dag hafi verið rigning upp á fjall­stoppa. Þar hafi snjórinn sjatnað og blotnað í honum. Í nótt er búist við á­fram­haldandi rigningu og að á­kefðin verði jafn­vel meiri en í dag. Því er hættu­stigi lýst á svæðinu.

Í dag féllu vot fleka­hlaup í Há­nefss­staða­fjalli og er búist við því að fleiri flóð geti fallið þegar snjórinn blotnar meira.

Þá segir í annarri til­kynningu frá Ofan­flóða­vaktinni að hætta sé á að fleiri krapa­flóð geti fallið á Suð­austur- og Austur­landi en tvö slík hafa fallið í dag, í Fá­skrúðs­firði og í Ör­æfa­sveit í dag.

Tölu­verð rigning hefur verið á svæðinu í dag og er spáð á­fram­haldandi rigningu.