Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi er mjög mikil, en á sama tíma búa Íslendingar ekki við sömu hættu og aðrir Evrópubúar þegar kemur að hryðjuverkum.
Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu stýrihóps Katrínar Jakobsdóttir, forsætisráðherra og þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum.
Telja að hryðjuverkamálið sé frávik
Í skýrslunni er tekið fram að þótt hryðjuverkaógn sé hnattræn og viðvarandi, þá búa Íslendingar ekki við sömu hættu og önnur Evrópuríki undanfarin ár og er hættu stig vegna hryðjuverka metið lágt hér á landi. Þar af leiðandi hefur ekki verið gripið til sömu innanlandsaðgerða og önnur Evrópuríki hafa gert í viðleitni til þess að sporna gegn hryðjuverkum.
„Hér á landi hefur ekki verið unnið hryðjuverk og enginn verið dæmdur fyrir hryðjuverkastarfsemi. Þótt hryðjuverkaógn hafi verið almennt verið takmörkuð er mikilvægt að lögregluyfirvöld séu undir það búin að takast á við slíka ógn,“ segir meðal annars í skýrslunni og er vitnað til hryðjuverkamálsins svo kallaða sem er á borði héraðssaksóknara, en beðið er eftir ákærum í því máli. Tekið er fram að lögregluyfirvöld telja að málið sé frávik og ekki til þess fallið að hækka viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar hér á landi.
Á Íslandi eru um 90 þúsund vopn á skotvopnaskrá lögreglu. Stýrihópurinn telur að miklu máli skiptir að vopnalöggjöf hér á landi sé skýr og afdráttarlaus, bæði hvað varða innflutning vopna og framleiðslu.
Í ábendingum stýrihópsins kemur fram að leggja þurfi áherslu á getu lögreglunnar til þátttöku í alþjóðasamstarfi á sviði hryðjuverkavarna, með upplýsingaskiptum, greiningu, rannsóknasamstarfi og tryggja að henni fylgi virkt eftirlit. Styrkja þarf heimildir lögreglu til eftirlits með skotvopnaeign og vörslu og jafnframt þarf að afnema undanþágur við banni við innflutningi sjálfvirka og hálfsjálfvirkra skotvopna.
Þá bendir hópurinn á mikilvægi þess að ljúka fullgildingarferli Evrópuráðssamningsins um varnir gegn hryðjuverkum og viðbótarbókun við hann.
Mikil áhætta á skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi
Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi er mjög mikil, að mati greiningadeildar ríkislögreglustjóra. Aukin notkun brotahópa á starfrænni tækni eykur ógn við öryggi samfélags og einstaklinga. Þá líkist íslenskur fíkniefnamarkaður æ meira þeim evrópska að því leyti að viðskipti hafa með auknu mæli færst á smáforrit og samfélagsmiðla.
„Markvissar aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi ættu að hafa í för sér margvíslegan samfélagslegan ávinning, þar með talið að stuðla að auknu öryggi borgaranna og hafa jákvæð áhrif á fjárhagsstöðu ríkissjóðs, einkum að því leyti sem aðgerðirnar beinast að skattsvikum, bótasvikum og vinnumarkaðsbrotum,“ segir í skýrslunni.
Stýrihópurinn segir í ábendingum sínum að byggja þarf upp tækniþekkingu innan lögreglu til þess að bregðast við netlægri brotastarfsemi og tryggja varðveislu rafrænna sönnunargagna.
Þá segir stýrihópurinn að mikilvægt sé að lögregla hafi skýrar heimildir til þess að grípa til ráðstafana í þágu afbrotavarna, meðal annars á sviði skipulagðrar brotastarfsemi, dreifingu á stafrænu kynferðisofbeldi gegn börnum, netbrotum og árásum geng æðstu stjórn ríkisins og hryðjuverkum.
Jafnframt þurfa aðgerðir lögreglu á þessu sviði að sæta virku eftirlitið, með tilliti til mannréttinda og réttarverndar.