Al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra hefur nú lýst yfir hættu­stigi í Ár­nes­sýslu vegna jarð­skjálfta­hrinunnar á Reykja­nesi en hættu­stig hefur verið í gildi á höfuð­borgar­svæðinu og á Reykja­nesi frá því fyrr í dag vegna málsins.

Á­kvörðunin um að lýsa yfir hættu­stigi í Ár­nes­sýslu var tekin í sam­ráði við lög­reglu­stjórann á Suður­landi og Veður­stofu Ís­lands þar sem ó­stöðu­leikinn eftir skjálftana nær yfir stórt svæði.

Skjálftarnir í morgun voru milli Kleifar­vatns og Grinda­víkur­vegar og var sá stærsti 5,7 að stærð á ellefta tímanum en fjöl­margir eftir­skjálftar mældust í kjöl­farið. Engir skjálftar hafa fundist milli Kleifar­vatns og Blá­fjalla á þessu ári en í sögunni hafa þar orðið skjálftar 6,5 að stærð.

Varað við grjóthruni

Líkt og áður segir er hættu­stig einnig í gildi á höfuð­borgar­svæðinu og á Reykja­nesi og hefur verið varað við grjót­hruni á þeim svæðum. Eitt­hvað hefur verið um skriðu­föll á Reykja­nesi vegna skjálftanna.

Að því er kemur fram í til­kynningu al­manna­varna gæti á­hrifa­svæðið stækkað ef skjálfta­virkni færist austar. Þar með væru fjöll á borð við Esjuna, Helga­fell, og Keili, á því svæði. „Fólki er bent á að fara var­lega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.“

„Al­manna­varnir hvetja fólk til þess að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum. Auk þess eru í­búar á þekktum jarð­skjálfta­svæðum beðnir um að kynna sér varnir og við­búnað vegna jarð­skjálfta,“ segir í til­kynningunni en leið­beiningar al­manna­varna má finna hér fyrir neðan.

  • Mikil­vægt að halda ró sinni.
  • Hús­gögn: Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Festið létta skraut­muni.
  • Lausir munir og skraut­munir: Stillið þungum munum ekki ofar­lega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggi­lega þannig að léttari munir færist ekki úr stað við jarð­skjálfta.
  • Kyndi­tæki og ofnar: Kynnið ykkur stað­setningu og lokun á vatns­inn­taki og raf­magns­töflu. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frá­gang á þvotta­vélum og upp­þvotta­vélum.
  • Skápa­hurðir: Geymið þungan borð­búnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggis­læsingar / barna­læsingar á skápa­hurðir til varnar að inni­hald þeirra falli út úr þeim.
  • Svefn­staðir: Fyrir­byggið að skápar, mál­verk, brot­hættir og þungir munir geti fallið á svefn­staði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milli­veggi.
  • Rúður: Tryggið að gler­brot fari ekki yfir svefn­staði og í­veru­staði fólks. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarð­skjálftum.
  • Út­varp og til­kynningar: Hlustið á til­kynningar og fyrir­mæli sem gefin eru í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum.
  • Símar: Hafa ber í huga að far­símar duga skammt ef raf­magn dettur út í lengri tíma. Þá getur verið gott að eiga hleðslu­tæki til að hafa í bif­reið eða hleðslu­banka til að hlaða far­síma. Sendu SMS til þinna nánustu í stað þess að hringja (sér­stak­lega eftir stóran jarð­skjálfta) til að minnka álag á sím­kerfi í ham­förum.

Al­mennt um hættur á þekktum jarð­skjálfta­svæðum þar sem fólk er beðið um að gæta var­úðar:

  • Vegna jarð­skjálfta­hrinu á Reykja­nes­skaga er fólki bent á að forðast brattar hlíðar þar sem grjót­hrun getur orðið og hætta á skriðu­föllum getur aukist. Skriður og grjót­hrun geta átt sér stað eftir stóra jarð­skjálfta, lík­legast á svæðum með ó­stöðugar hlíðar, bratta kletta­veggi og laust efni, t.d. í ná­grenni Kleifar­vatns, Esjuna, Ingólfs­fjall, Blá­fjöll, Hengill, Keilir, Helga­fell, Vífils­fell og fleiri þekkt úti­vistar­svæði.

Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykja­nes­skaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða á á­hrifa­svæðinu.
Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.
Háir rekkar í vöru­húsum og/eða verslunum geta verið vara­samir og hafa ber um­ferð fólks á slíku svæði í huga við jarð­skjálfta.