Fækkað hefur um einn í Gagnamagninu, hljómsveitinni sem keppti fyrir hönd Íslands í Evrópsku Söngvakeppninni, Eurovision árin 2021 og 2020.

Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, meðlimur Gagnamagnsins, greinir frá því á Twitter að einn meðlima Gagnabandsins hafi sagt sig úr hljómsveitinni eftir að Daða Frey og öðrum meðlimum bandsins bárust skilaboð frá meintum þolanda.

„Hann játar og segir sig svo úr bandinu, við ákváðum aftur að ekki opinbera það þar sem ég hélt að við værum að halda í hennar ósk að ekki opinbera,“ segir í yfirlýsingu Huldu Kristínar á Twitter.

Þar segir hún hljómsveitina ekki hafa greint frá ásökununum fyrr þar sem hún taldi að meintur þolandi hafi ekki viljað opinbera málið.

Ræddi málið við Daða og bandið

Miklar umræður hafa skapast á um málið á samfélagsmiðlinum Twitter. Meintur þolandi rekur þar samskipti sín við hljómsveitarmeðlimi, einkum Daða Frey, en hún segist hafa sett sig í samband við hann og hljómsveitina rétt eftir Eurovision og greint frá ofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir af hendi eins liðsmanns bandsins.

Í frásögn hennar er hvorki tilteknum ofbeldisverkum lýst né greint frá nafni umrædds liðsmanns en þó sögð á honum nokkur deili, meðal annars að hann hafi verið útnefndur Sunnlendingur vikunnar.

Umræðan hófst eftir að Hulda gagnrýndi sljó viðbrögð hljómsveitarinnar Une Misère um ásakanir á hendur Jóni Má Ásbjörnssyni, tónlistar- og útvarpsmanni, en honum var nýlega sagt upp störfum á X-inu vegna ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

„Sorry en hvaða ömurlega PR dæmi er þetta? Þið eruð búnir að vita af þessu í marga mánuði, búnir að standa við bakið á honum en ekki hlusta á vinkonur ykkar í næstum ár. Ég þurfti í alvörunni að vera með fræðslu fyrir einn ykkar. Hvað er að?“ skrifaði Hulda á Twitter.

Edda Falak, viðskiptafræðingur og stjórnandi hlaðvarpsþáttarins Eigin konur, svaraði Huldu með orðunum:

„Áhugavert. Ég veit ekki betur en að búið sé að benda ykkur á meðlim í Gagnamagninu fyrir löngu en þið ákváðuð að gera ekki neitt.“

Sagðist Hulda hafa komið af fjöllum þangað til í júní síðasta sumar en kveður liðsmanninn hafa sagt sig úr bandinu.

Ber mikla virðingu fyrir Öfgum og Eddu

Í nýrri yfirlýsingu tekur Hulda fram að hún beri mikla virðingu fyrir aðgerðarhópnum Öfgum og Eddu Falak, sem hafa opnað umræðu um málið á samfélagsmiðlum eftir yfirlýsingu meints þolanda, en segir hún seinustu daga hafa verið erfiða, sérstaklega í ljósi máls Une Misère.

„Seinustu dagar hafa verið ógeðslega erfiðir þar sem þið talið um mig og málið mig sem lygara, gerið lítið úr máli sem ég veit mikið um og er búin að berjast fyrir þegar ekki var hlustað á nánar vinkonur mínar og þær búnar að gefast upp.“

Meintur þolandi svarar Huldu og segir að reiði hennar beinist ekki að Huldu heldur að gerandanum „og Daða, sem hefur vitað um þetta í tvö ár.“

Daði Freyr hefur ekki blandað sér í þessa umræðu á Twitter, né aðrir úr bandinu en Hulda.

Fréttablaðið hefur verið í samskiptum við meintan þolanda í málinu en hún hefur ákveðið að veita ekki viðtöl um málið við fjölmiðla að svo stöddu.