Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir honum þætti áhugavert ef Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, myndi skýra orð sín frá því fyrr í kvöld, það er að segja gagnvart hverjum samningi væri rift og með hvaða hætti.

Forsvarsmenn Eflingar hótuðu því í kvöld að rifta nýgerðum kjarasamningum, vegna framgöngu hóteleigandans Árna Vali Sólonssonar. Sólveig Anna sagði í yfirlýsingu að Samtök atvinnulífsins væru „að kóa með verstu sort af kapítalista“, en Árni Valur greip til hópuppsagna til að lækka launakostnað vegna þess kostnaðarauka sem hlytist af kjarasamningum.

Efling sendi bréf á Árna Val til að leita skýringa á málinu en hann rekur CityPark, CityCenter og CapitalInn. Rekstrarfélögin tilheyra Samtökum atvinnulífsins. Fram kemur í yfirlýsingu Eflingar að miðstjórn ASÍ hafi í kjölfarið lýst því yfir að stéttarfélögin hefðu þann rétt að rifta kjarasamningum gagnvart þeim atvinnurekendum sem ekki virtu þá sem samið hefði verið um. Þar með væru lögmætar þvingunaraðgerðir á borð við verkföll í spilinu. Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri sagði að allur kjarasamningurinn væri í húfi.

Halldór Benjamín vill að Sólveig Anna skýri hvað hún á við. „Að öðru leyti hafna ég þessum málatilbúnaði með öllu og stend við allt sem fram kemur í svarbréfi Samtaka atvinnulífsins. Ég er hættur að kippa mér upp við gífuryrði forystu Eflingar en vísa til þess að allt sem kemur fram í svarbréfinu stenst fullkomlega skoðun,“ segir Halldór við Fréttablaðið.

Halldór segir að hann hafi komið þeim skilaboðum til Eflingar í gegnum fjölmiðla að það væri óþarfi að senda út fréttatilkynningar, nóg væri að hringja í framkvæmdastjóra SA og óska eftir fundi. Hann væri boðinn og búinn að ræða mistúlkanir á einstaka atriðum kjarasamnings. Að sama skapi sæi hann ekki hvert hlutverk Ríkissáttasemjara væri í þessu tilliti. Það stæði líka upp á formann Eflingar að útskýra það.