Dr. Bjarni Már Magnús­son, prófessor í lög­fræði við Há­skólann í Reykja­vík, segir mikil­vægt að Ís­lendingar losi sig við hetju­í­myndina í kringum Jón Sigurðs­son og hygli heldur þeim sem áttu mestan þátt í full­veldi Ís­lands; Bjarna Jónssyni frá Vogi og Einari Arnórssyni. Þjóðhátíðardagur Íslendinga er haldinn hátíðlegur árlega á afmælisdegi Jóns, 17. júní, til að heiðra minningu hans.

„Ís­land verður form­lega til sem sjálf­stætt ríki 1. desember 1918. Lýð­veldis­stofnun er bara eitt­hvað auka­at­riði í því sam­hengi,“ segir Bjarni.

„Auð­vitað var sjálf­stæðis­bar­áttan þannig að fullur að­skilnaður frá Dönum var krafan. En það eru til ríki sem eru með annan þjóð­höfðingja t.d. Ástralía og Kanada,“ segir Bjarni en í þeim löndum er Bret­adrottning þjóð­höfðingi. „Og menn eru ekkert að stressa sig á því þar.“

„Þannig að þetta er full­veldi er al­gjört lykil­at­riði fyrir Ís­land. Önnur ríki hafa verið að nota daginn sem þau hafa verið að setja stjórnar­skránna, sem er líka 17. júní 1944 á Ís­landi. Það væri nú skemmti­legt ef við myndum breyta þessu og hætta að halda upp á lýð­veldis­daginn og halda upp á stjórnar­skrár­daginn,“ segir Bjarni léttur.

„Hefur lítið að gera með full­veldi Ís­lands"

Full­veldis­dagurinn er ekki al­mennur frí­dagur á Ís­landi líkt og 17. júní og segir Bjarni að það þurfi að breyta því.

„Að mínu mati er það náttúru­lega galið. Það er verið að halda upp á daga eins og sumar­daginn fyrsta og annar í hinum og þessum dögum í maí og júní. Maður man varla hvað er verið að halda upp á. Ég meina hvaða rugl er þetta?“ segir Bjarni.

Hann segir að Jón Sigurðs­son hafi vissu­lega verið „magnaður ná­ungi“ en þessi hetju­í­mynd sem Ís­lendingar hafa af manninum þarf að fjúka. Fæðingar­dagur Jóns, 17. júni, var valinn sem þjóð­há­tíðar­dagur Ís­lendinga en Jón lést árið 1879, næstum hálfri öld áður en Ís­land fékk full­veldi.

„Í fyrsta lagi hefur hann voða­lega lítið að gera með full­veldi Ís­lands og hvað þá lýð­veldis­stofnunina. Hann talaði heldur ekkert fyrir þessu hann vildi að meiri völd færu til Ís­lands og skerpa skilin milli Ís­lands og Dan­merkur. Hann er ekki að tala fyrir ná­kvæm­lega þessum hug­myndum sem þetta endar svo í,“ segir Bjarni.

Íslendingar ættu heldur að hygla Bjarna Jónssyni frá Vogi, alþingismanni Dalasýslu og Einari Arnórssyni, ráðherra Íslands 1915- 1917 og dóms- og menntamálaráðherra 1942- 1944.
Ljósmyndir/Alþingi

Jón hylltur víða í íslensku samfélagi

Stytta af Jóni Sigurðssyni, eftir Einar Jónsson, hefur staðið fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli frá árinu 1931. Jón prýðir einnig 500 króna seðilinn á­samt því að vera vatns­merkið á öllum ís­lenskum peninga­seðlum. Bjarni segir hins vegar að „aðal­mennirnir“ á bak við full­veldi Ís­lands hafi gleymst meðal lands­manna.

„Hvað varðar full­veldið þá er það Einar Arnórs­son og Bjarni Jóns­son frá Vogi sem eru aðal­mennirnir og eigin­lega bara eiga það. Og er ein­hver há­tíð til heiðurs þeim?“ spyr Bjarni

„Hefur ein­hver heyrt um þá? Aðrir en sér­fræðingar í þessum málum. Mér finnst það sér­stakt. Ég vil fá styttu í mið­bæinn af þeim tveim,“ segir Bjarni léttur. „Tíu metra styttu,“ bætir hann við og hlær.

Stytta af Jóni Sigurðssyni hefur staðið á Austurvelli í rúm 90 ár. Hún fær það hlutverk reglulega að tróna yfir mótmælum fyrir framan Alþingishúsið.
Fréttablaðið/Valli