„Við erum að vinna saman, Rauði krossinn og Samhjálp og við, um að standsetja og setja á fót dagsetur. Við erum með allar klær úti og viljum gera þetta hratt og örugglega. Við viljum gera þetta saman, sveitarfélög og ríki því það er styrkur að geta unnið saman og þetta bréf er hluti af því,“ segir Ingvi Kristinn Skjaldarson, flokksforingi í Hjálpræðishernum í Reykjavík, en herinn sendi Garðabæ bréf varðandi aðstoð með rekstur dagseturs fyrir heimilislausa.

Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Svanhildur Þengilsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, gerðu í bæjarráði grein fyrir vinnu á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu varðandi greiningu á stöðu heimilislausra utan Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í lok febrúar.

Hjálpræðisherinn rak dagsetur fyrir heimilislausa um árabil en varð að leggja það niður þegar húsnæði sem það hafði var selt.
Fréttablaðið/AntonBrink

„Við lítum á það þannig að þetta sé ekki bara verkefni borgarinnar heldur sveitarfélaganna í kring og ríkisins líka,“ segir Ingvi sem hefur sent fleiri sveitarfélögum bréf um stofnun dagseturs sem herinn rak hér áður fyrr. „Þetta er hættulegur tími fyrir fólk sem býr á götunni. Úti er kalt og mikið frost og mjög erfiður tími. Borgin hefur staðið sig vel en það er ekki boðlegt að fólkið á götunni þurfi að vera í gistiskýli allan sólarhringinn.

Að brjóta upp daginn og hafa stað sem er öruggur fyrir það yfir daginn. Fá sér kaffi og eiga öruggt skjól sem það er velkomið í. Og við þurfum að gera það saman,“ segir Ingvi.