Veðurviðvaranir eru áfram í gildi um allt land nema á höfuðborgarsvæðinu vegna norðanstorms. Á Suðausturlandi er appelsínugul viðvörun í gildi en annars staðar á landinu eru þær gular.
Fram kemur á viðvörunarvef Veðurstofunnar á Suðausturlandi að spáð sé norðanstormi eða roki og öflugum vindhviðum undir Vatnajökli. Mjög varasamt ferðaveður er á þeim slóðum og hættulegt að vera á ferðinni. Vindhviður geta farið yfir 45 m/s og möguleiki á sand-og grjótfoki.
Þá kemur fram í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar að spáð sé norðanhvassvirði eða stormi með snjókomu eða éljum á norðurhelmigni landsins, einkum á Norðaustur-og Austurlandi.
Búist er við því að ekki taki að lægja að ráði fyrr en eftir hádegi á morgun, föstudag. Þá herðir hinsvegar frostið á móti og er búist við miklu kuldakasti.
„Búist er við norðan roki úti fyrir Norður- og Austurlandi. Stórstreymt er um þessar mundir þ.a. há ölduhæð og áhlaðandi getur valdið miklum ágangi sjávar við ströndina,“ segir beinum orðum í athugasemd veðurfræðings.
Þá geta vindhviður farið yfir 40 m/s undir Eyjafjöllum og í Mýdal. Varað er við hviðum allt að 40 m/s við Faxaflóa. Á Austfjörðum geta þær farið yfir 35 m/s.
Yfirlit: Vetrarfærð er á landinu og slæmt ferðaveður víða. Margir vegir eru ýmist lokaðir eða ófærir á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) December 3, 2020
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á föstudag:
Norðan 13-20 m/s, en hvassara í fyrstu SA-lands. Él á Norður- og Austurlandi, en annars víða bjartviðri. Lægir og styttir upp seinnipartinn, fyrst N-lands. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins.
Á laugardag:
Hæg suðvestlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en líkur á stöku éljum við SV-ströndina. Frost víða 4 til 18 stig, mildast syðst.
Á sunnudag:
Suðaustan 3-10, hvassast við S-ströndina. Dálítil él við S- og V-ströndina, en annars bjartviðri. Dregur heldur úr frosti.
Á mánudag og þriðjudag:
Áfram hægar austlægar áttir með éljum á víð og dreif. Frost 0 til 6 stig.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir austan golu með úrkomulitlu og hægt hlýnandi veðri.