Veður­við­varanir eru á­fram í gildi um allt land nema á höfuð­borgar­svæðinu vegna norðan­storms. Á Suð­austur­landi er appel­sínu­gul við­vörun í gildi en annars staðar á landinu eru þær gular.

Fram kemur á við­vörunar­vef Veður­stofunnar á Suð­austur­landi að spáð sé norðan­stormi eða roki og öflugum vind­hviðum undir Vatna­jökli. Mjög vara­samt ferða­veður er á þeim slóðum og hættu­legt að vera á ferðinni. Vind­hviður geta farið yfir 45 m/s og mögu­leiki á sand-og grjót­foki.

Þá kemur fram í at­huga­semd veður­fræðings á vef Veður­stofunnar að spáð sé norðan­hvassvirði eða stormi með snjó­komu eða éljum á norður­helmigni landsins, einkum á Norð­austur-og Austur­landi.

Búist er við því að ekki taki að lægja að ráði fyrr en eftir há­degi á morgun, föstu­dag. Þá herðir hins­vegar frostið á móti og er búist við miklu kulda­kasti.

„Búist er við norðan roki úti fyrir Norður- og Austur­landi. Stór­streymt er um þessar mundir þ.a. há öldu­hæð og á­hlaðandi getur valdið miklum á­gangi sjávar við ströndina,“ segir beinum orðum í at­huga­semd veður­fræðings.

Þá geta vind­hviður farið yfir 40 m/s undir Eyja­fjöllum og í Mý­dal. Varað er við hviðum allt að 40 m/s við Faxa­flóa. Á Aust­fjörðum geta þær farið yfir 35 m/s.

Veður­horfur á landinu næstu daga:

Á föstu­dag:
Norðan 13-20 m/s, en hvassara í fyrstu SA-lands. Él á Norður- og Austur­landi, en annars víða bjart­viðri. Lægir og styttir upp seinni­partinn, fyrst N-lands. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugar­dag:
Hæg suð­vest­læg eða breyti­leg átt og víða bjart­viðri, en líkur á stöku éljum við SV-ströndina. Frost víða 4 til 18 stig, mildast syðst.

Á sunnu­dag:
Suð­austan 3-10, hvassast við S-ströndina. Dá­lítil él við S- og V-ströndina, en annars bjart­viðri. Dregur heldur úr frosti.

Á mánu­dag og þriðju­dag:
Á­fram hægar aust­lægar áttir með éljum á víð og dreif. Frost 0 til 6 stig.

Á mið­viku­dag:
Út­lit fyrir austan golu með úr­komu­litlu og hægt hlýnandi veðri.