TF-ABB, flugvélin sem fórst með fjórum mönnum í Þingvallavatni, verður hífð upp úr Þingvallavatni á föstudag, eftir tvo daga. Fjórir létust í slysinu, 3. febrúar síðastliðinn.

Um borð í vélinni voru flugmaðurinn Haraldur Diego, ásamt þremur erlendum mönnum frá Bandaríkjunum, Belgíu og Hollandi.

Leit að mönnunum og vélinni er ein sú umfangsmesta seinni ár og vakti mikla athygli þegar tókst að koma líkunum á land við erfiðar aðstæður, viku eftir slysið.

Rúnar Steingrímsson hjá lögreglunni á Suðurlandi segir um að ræða flókið verkefni. Um 55 menn muni koma að framkvæmdinni.

Þar má nefna lögreglu, kafara, sérsveitir, rannsóknaraðila, björgunarsveitir og einkaaðila sem láta í té ýmsan sérhæfðan tæknibúnað.

Aðgerðin snýst í einfölduðu máli um að koma á flot björgunartæki yfir flugvélarflakinu, kafa niður að flakinu, festa taug við flakið, draga það upp, lyfta því upp úr vatninu og flytja í skýli Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Áskorun verður að sögn Rúnars bjarga öllum rafeindabúnaði úr vélinni.

Rúnar segir að myndir úr sjávardróna sem sendur var niður í vatnið nýverið bendi til að flugvélarflakið hafi komið vel undan ísnum. Flakið er rúmt tonn að þyngd. Bætist við þyngdina þar sem vélin verður full af vatni þegar hún verður dregin upp.

„Hættulegast við þessa aðgerð er að senda kafara niður á tæplega 50 metra dýpi. Við vonum að það gangi vel. Snúnast er sennilega að koma flakinu upp úr vatninu,“ segir Rúnar.

Rannsóknarnefnd flugslysa hefur slysið til rannsóknar. Helsta spurningin sem leitað er svara við er hvers vegna TF-ABB fór í vatnið með þessum ömurlegu afleiðingum.

Mikil leit var gerð að TF-ABB er flugvélin skilaði sér ekki úr útsýnisflugi austur fyrir fjall. Böndin bárust fljótlega að svæðinu sunnan Þingvallvatns og vestan Úlfljótsvatns.

Morguninn eftir hvarf vélarinnar beindist leitin hins vegar sérstaklega að suðurhluta Þingvallavatns í samræmi við upplýsingar úr síma Bandaríkjamannsins um borð.

Flakið fannst á botni Ölfusvatnsvíkur en lík fjórmenninganna reyndust þá ekki vera um borð. Þau fundust hins vegar í vatninu skammt undan flakinu og var bjargað í land viku eftir slysið