Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins segir það í raun í takt við aðgerðir síðustu ára að tilkynningum um heimilisofbeldi hafi farið fjölgandi. Greint var frá því í síðustu viku að samkvæmt tölum ríkislögreglustjóra hafi tilkynningum alls fjölgað um tólf prósent á þessu ári miðað við það síðasta.
„Það veit enginn fyrir víst hvað er að baki þessum tölum en það er von okkar að ástæða fjölgunarinnar sé meiri meðvitund um ofbeldi,“ segir Linda en undanfarin ár hefur verið mikill fókus á að þolendur tilkynni það ofbeldi sem þeir verða fyrir.
„Það vita það allir í þessum sem kom að þessum málaflokki að það eru allt of fáar tilkynningar miðað við það hversu mikið ofbeldi er þarna úti. Ef það er að raungerast núna og þessar aðgerðir eru að ganga upp að gera fólki auðveldara fyrir að tilkynna þá er það fagnaðarefni en á sama tíma verður maður alltaf að taka svona tölur alvarlega og rýna þær eins mikið og mögulegt er og skrifa þær ekki út bara með því að þetta sé ástæðan, þótt svo að okkur gruni það,“ segir Linda en hún segist ekki endilega finna fyrir því að ofbeldið í samfélaginu hafi aukist til muna.
141 kona í dvöl á þessu ári
Hún segir það sem af er þessu ári hafi komið 141 kona í dvöl í athvarfið en að í fyrra hafi allt árið komið til þeirra 112 konur. En tekur þó fram á síðasta ári hafi verið óvenjufáar konur og að meðaltalið hafi yfirleitt verið um 130 konur.
„Það var mikil umræða um ofbeldi í Covid og um að fólk væri vakandi yfir því. Að það skipti sér af og við teljum að það sé að bera árangur. Við finnum að konur sem koma í viðtöl eru oft að koma því einhver í nærumhverfinu er að hvetja þær til þess leita sér aðstoðar á meðan þær eru ekki endilega alltaf að kveikja að þær séu í ofbeldissambandi.“
Hún segir að því taki þær tölurnar alvarlega en að hún telji að aukninguna megi rekja til meiri umræðu og vitundar í samfélaginu.
Um 37 prósent manndrápsmála heimilisofbeldi
Í tölum ríkislögreglustjóra kemur einnig fram að þau hafi verið að rýna í gögn um manndrápsmál og að samkvæmt þeirra greiningu sé 37 prósent manndrápsmála á tímabilinu 1990 til 2020 heimilisofbeldismál. Linda segir þetta hræðilega staðreynd.
Við þekkjum það vel í Kvennaathvarfinu að þegar kona ákveður að fara úr ofbeldissambandi á ofbeldið það til að stigmagnast og getur orðið stórhættulegt
„Við erum alltaf að kenna stelpunum okkar að fara varlega, að passa sig niðri í bæ og á útihátíðum á meðan hættulegasti staðurinn er heimilið. Það sýna allar tölur það. Bæði varðandi manndráp og ofbeldi og við þekkjum það vel í Kvennaathvarfinu að þegar kona ákveður að fara úr ofbeldissambandi á ofbeldið það til að stigmagnast og getur orðið stórhættulegt. Það er því mjög mikilvægt að konur séu gripnar um leið og þær ákveða að fara,“ segir Linda.
Hún segir það algert prinsippatriði í Kvennaathvarfinu að segja aldrei nei við konur sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis en þó hefur verið fjallað um það að húsnæðið sé sprungið en þær standa í söfnun eins og er.
„Söfnunin gengur ágætlega en við eigum enn langt í land. Þetta er stórt verkefni sem við erum að fara út í en við þurfum væntanlega að taka annan hring,“ segir Linda en Kvennaathvarfið hefur fengið úthlutað lóð þar sem á að byggja þeim nýtt húsnæði fyrir þær konur sem þangað leita og börnin sem stundum fylgja þeim.
„Þetta er verkefni sem mun taka nokkur ár þannig við höfum verið að leita að stuðningi sem gæti komið árlega í nokkur ár. Við höldum áfram að safna.“