Hanna Katrín Frið­riks­son, þing­flokks­for­maður Við­reisnar og Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar tóku sig báðar af mælenda­skrá í annarri um­ræðu um loft­lags­mála­frum­varpið. Segja þær í sam­tali við RÚV að þær hafi gert það vegna mál­þófs Mið­flokksins.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í kvöld raðaði allur þing­flokkur Mið­flokksins sér á mælenda­skrá vegna málsins. Miðar frum­varpið meðal annars að styrkingu á stjórn­sýslu og um­gjörð stjórn­sýslu loft­lags­mála en Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins sagði frum­varpið dæmi um kerfis­væðingu vanda­málsins.

Hanna segir það auð­sýnt að Mið­flokkurinn sé lagður af stað í mál­þóf númer tvö og að hún ætli sér bara að leyfa þeim að eiga það. Þing­menn Mið­flokksins hafa farið mikinn á nú­verandi þing­vetri en mál­þóf flokksins vegna hins svo­kallaða þriðja orku­pakka er meðal lengstu mál­þófa í sögu Al­þingis líkt og fram kom í svörum frá skrif­stofu þingsins til Al­þingis.

„Lífið er of gott fyrir mál­þóf,“ er haft eftir Helgu Völu í frétt RÚV og ljóst að hún hefur lítinn á­huga á að taka þátt í um­ræðum með Mið­flokks­mönnum. For­menn flokkanna á Al­þingi hittust í dag þar sem rætt var um fram­hald þing­starfa en komust ekki að sam­komu­lagi um til­högun þeirra.