Búið er að fresta fundi stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefndar þar sem ræða átti um­mæli Gunnars Braga Sveins­sonar, þing­manns Mið­flokksins, um hugsan­lega sendi­herra­stöðu þar sem hvorki Gunnar Bragi né Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, svöruðu fundar­boði nefndarinnar. 

Fundurinn átti að hefjast klukkan tíu í dag en auk Gunnars Braga og Sig­mundar voru Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra og Guð­laugur Þór Þórðar­son boðaðir á hann. Guð­laugur Þór boðaði for­föll þar sem hann er staddur er­lendis. 

Jón Þór Ólafs­son, þing­maður Pírata, stað­festir í sam­tali við Frétta­blaðið að ekkert verði úr um­ræddum fundi en að þess í stað verði hefð­bundin dag­skrá hjá nefndinni. 

Boðað var til fundarins eftir Klausturs­upp­tökurnar svo­nefndu en þar heyrist Gunnar Bragi gefa í skyn að hann eigi inni greiða hjá Sjálf­stæðis­flokknum og verði því skipaður sendi­herra. Bjarni Bene­dikts­son og Guð­laugur Þór harð­neita því að hafa lofað Gunnari Braga slíkri stöðu, en þeir hafa báðir stað­fest að hafa átt fund með Sig­mundi Davíð, þar sem Sig­mundur á að hafa upp­lýst þá um á­huga Gunnars Braga á sendi­herra­stöðu.