Sif Huld Albertsdóttir fyrrverandi bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks (BsVest) hefur fengið samþykktan starfslokasamning sinn hjá BsVest. Frá því er greint í tilkynningu á vef stofnunarinnar en þar kemur einnig fram að starfslokin séu gerð í fullri sátt við stjórn og er Sif Huld þakkað fyrir vel unnin störf fyrir byggðasamlagið sem og að málefnum fatlaðs fólks á Vestfjörðum.

Málið á sér nokkurn aðdraganda en í ágúst á síðasta ári komst Sif Huld að samkomulagi við Ísafjarðarbæ, sem rekur BsVest, vegna eineltis sem hún hefur orðið fyrir hjá stofnuninni. Sif lagði fram bóta­kröfu á hendur Ísa­fjarðar­bæ 14. júní í fyrra vegna lang­varandi og ó­tví­ræðs ein­eltis í sinn garð og baðst form­lega lausnar frá störfum sínum sem bæjar­full­trúi 24. júní sama ár en hún hafði setið í bæjar­stjórn í þrjú ár fyrir Sjálf­stæðis­flokkinn.

„Á­­stæðan fyrir því að ég biðst lausnar er sú að í tæpt hálft ár hefur staðið yfir rann­­sókn á ein­elti af hálfu em­bættis­­manns Ísa­fjarðar­bæjar gegn mér. Ísa­fjarðar­bær fékk ráð­gjafa­­fyrir­­­tækið Attentus til að taka við málinu og greina þann djúp­­stæða vanda sem við stóðum fyrir. Í lok mars kynnti svo Attentus niður­­­stöðu ítar­­legrar greiningar sem var unnin var með við­­tölum við vitni og aðra tengda málinu. Niður­­­staðan var að um ein­elti var að ræða og ljóst að ég hafði í­trekað vakið at­hygli á þessum sam­­skiptum,“ sagði Sif Huld í yfir­­­lýsingu sem hún sendi frá sér í fyrra.

Sá ekki aðra lausn

Í samtali við Fréttablaðið í kvöld segir Sif Huld að hún sé að nokkru leyti fegin að málinu sé lokið en að eftir að hún náði sáttum við bæinn hafi aðstæður ekki breyst og því hafi hún ekki séð aðra lausn en að hætta.

„Þessi hegðun hætti ekki þrátt fyrir falleg loforð um annað,“ segir hún og að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Hún hafi brunnið fyrir málefninu en að staðan hafi verið orðin mjög slæm fyrir hana persónulega. Hún segir starfslokasamninginn trúnaðarmál en að samningurinn hafi tekið gildi 1. Desember.

Hvernig líður þér?

„Þetta er búið að vera langt ferli og ég vonaði svo að þolandinn þyrfti ekki að hætta en það voru allir sem sögðu við mig að það væri þannig. En ég hugsaði bara að það væri 2022 og að þetta hlyti að vera breytt. En svo reynist það bara ekki rétt. Ég myndi ekki bjóða öllum upp á það að reyna þetta því þetta er ekki auðveld leið.“

Svo er þetta allt opinbert og í litlu bæjarfélagi. Gerir það þetta erfiðara?

„Já, maður verður ansi var um sig og sér fljótt hverjir eru vinir sínir og hverjir ekki. Það er erfitt í svona litlu bæjarfélagi en þá metur maður vini sína betur,“ segir Sif Huld sem segir næstu skref óráðin og að hún ætli að taka sér tíma fyrir næsta verkefni.

„Ég held að það hafi verið skynsamlegast að loka þessum dyrum og klára þetta. Nú get ég hugsað um sjálfa mig og fjölskylduna og svo skoðað hvað er næst.“