Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra segir að hann hafi heyrt í Guðlaugi Þór í morgun en að hann verði að fá að „eiga sitt móment“. Hann sagði að ef hann nær ekki kjöri á landsfundi næstu helgi sem formaður þá hætti hann í stjórnmálum. Það sagði Bjarni á Sprengisandi í Bylgjunni í morgun.

Bjarni sagðist alltaf hafa verið skýr með það að það eigi engin tilkall til formannsembættisins eða nokkurs annars embættis innan flokksins. Það sama gildi um sæti á Alþingi.

Spurður hvernig hann líti á mögulegt framboð Guðlaugs til formanns sagði Bjarni að hann hafi átt samtöl við Guðlaug síðustu daga um stöðuna. Eins og greint hefur verið frá hefur Guðlaugur Þór boðað til fundar í Valhöll í hádeginu þar sem hann mun líklega tilkynna um framboð sitt til formanns flokksins.

„Það hafa ekki komið fram neinar ábendingar eða gagnrýni sem varða málefnalegar áherslur Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Bjarni og að hann myndi skilja mjög vel ef gagnrýnin væri þannig en að þetta varði meira innra starfs flokksins, verkaskiptingu og hvernig unnið er innan hans.

Gamaldags valdabarátta

Bjarni sagði að það mætti vel kjósa um það en að það sem hann ætlaði að einbeita sér að væri það sem hann lofaði að gera í kosningunum síðasta haust, og það væri að ná árangri.

„Þetta er bara gamaldags valdabarátta,“ sagði Bjarni og að auðvitað væri hann sammála því sem Guðlaugur hefur sagt að flokkurinn sé ekki með nægilegt fylgi en að leiðin til að laga það sé ekki að skapa fylkingar eða átök innan flokksins.

„Ef flokksmenn geta ekki staðið saman, af hverju ættu þá fólk að standa með flokknum?“ spurði Bjarni.

Hann sagðist sækjast eftir endurkjöri með auðmýkt og að hann telji það alls ekki sjálfsagt að fá að hafa sinnt embættinu svo lengi.

Spurður hvaða áhrif þetta hefur á innra starfið, svona átök, sagði Bjarni að það væri eftir því hvernig er spilað frá sér og að ef fólk geri mistök þá geti allt sprungið.

Spurður hvort að hann geti setið áfram sem fjármálaráðherra tapi hann formannsslagnum sagði Bjarni

„Ef að mínum tíma sem formanni lýkur í þessu kjöri þá er mínum tíma í stjórnmálum bara lokið,“ sagði Bjarni og stuttu síðar að hann telji sig þó sigra kosninguna. Hann segist þó berjast fyrir sinni stöðu og að það séu mörg verkefni fram undan sem hann vilji takast á við.

Hann sagði vilja kjósenda verða að ráða í þessari ákvörðun en að það séu allskonar skoðanir innan flokksins og að það muni koma í ljós næstu helgi hverjar þær eru. Það verði rætt í þessari viku.

Hann sagðist undra að málið snúist um innri málefni flokksins en ekki það sem skipti máli fólkið í landinu.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér á vef Vísis en það er enn í gangi.