Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is
Laugardagur 1. maí 2021
02.39 GMT

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags-og samgönguráðs, undirgengst nú gigtarrannsóknir og hyggst veikinda sinna vegna hætta í borgarstjórn. Hún segir gífurlegt álag í starfi hafa ýtt undir veikindi sín og segir ákvörðunina um að hætta alfarið hafa verið þá erfiðustu sem hún hafi tekið.

„Núna í nóvember fór ég í veikindaleyfi, ég hélt að ég þyrfti bara smá tíma og byrjaði svo aftur að vinna 1. mars. En það gekk ekkert rosa vel. Þannig að ég er sem sagt komin aftur í veikindaleyfi. Það er svolítið bara niðurstaðan eftir að hafa farið yfir þetta og í gegnum þetta með fjölskyldunni, að hætta í bili og við ætlum svolítið að kúpla okkur niður og einfalda lífið.“


Flytja til Húsavíkur


Sigurborg og eiginmaður hennar, sjúkraþjálfarinn Björn Hákon Sveinsson og synir þeirra tveir; Sveinn Jörundur og Freyr Völundur, hyggja á flutninga til Húsavíkur.

„Maðurinn minn er sem sagt þaðan og tengdaforeldrar mínir búa þar. Þannig að við sjáum fyrir okkur að geta fengið góðan stuðning þar með strákana okkar. Hann er svo með vinnu þar sem sjúkraþjálfari og ég get þá vonandi hlaðið batteríin og náð aftur heilsu.“

Sigurborg hefur verið formaður skipulags-og samgönguráðs síðan nefndin var klofin frá umhverfis-og skipulagsráði árið 2018. Hún hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir skelegga framgöngu sína í baráttunni fyrir bíllausum lífsstíl og segist alla tíð hafa haft brennandi áhuga á skipulags- og umhverfismálum. Ákvörðunin um að stíga til hliðar er því gríðarlega erfið.

„Þetta var örugglega erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið um ævina. Þegar þú ert að gera eitthvað sem þú elskar, brennur fyrir og er þín ástríða, langar þig ekkert að hætta eða fara og það að fá að starfa sem kjörinn fulltrúi í borgarstjórn eru náttúrulega forréttindi. Maður yfirgefur ekki slíka stöðu svona af því bara.“


Ætlaði að harka af sér


Sigurborg hefur aldrei rætt veikindi sín opinberlega áður og segist hafa ætlað að harka af sér og bera harm sinn í hljóði, að íslenskum sið. Hún fór eins og fyrr segir í veikindaleyfi síðasta vor í einn mánuð og svo aftur í nóvember síðastliðnum og mætti aftur til vinnu í síðasta mánuði.

„Ég skipulagði mig þannig að ég skrifaði greinar og birti hluti á meðan ég var í veikindaleyfi. Ég vildi ekki að fólk héldi að ég væri í veikindaleyfi og gerði allt til að fela það. Ég vildi sýnast vera nógu sterk.“ Hún segir ýmsa hafa ýjað að því að hún gæti ekki valdið stöðunni sem formaður skipulagsráðs.

„Að ég væri ekki nógu sterk. Þannig mér fannst ég þurfa að fela það.“


„Ég vildi ekki að fólk héldi að ég væri í veikindaleyfi og gerði allt til að fela það. Ég vildi sýnast vera nógu sterk.“


Hún segir að í nóvember hafi líkaminn hins vegar hreinlega gefið sig. „Ég var bara alveg komin upp að vegg. Ég var hætt að geta staðið í lappirnar. Ég var algjörlega búin með alla orku og komst ekki fram úr á morgnana, gat ekki hugsað um mig né börnin mín. Þetta er í rauninni algjör örmögnun, þar sem þú ert bara algjörlega máttlaus, hefur enga orku og ert bara síþreytt. Ég hef verið að glíma við stanslausan skjálfta líka sem hefur fylgt þessu og er mjög leiðinlegur.“


Hættulegur kokteill


Aðspurð út í veikindi sín segist Sigurborg nú vera í gigtarrannsóknum.

„En það er ekki komin nein niðurstaða í það ennþá.“ Hún segir ástæðurnar eflaust fjölþættar en þá berst talið að því mikla álagi sem fylgir starfinu í borgarstjórn og skipulagsráði.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir treystir sér ekki til þess að leggja pólitíkina á andlega og líkamlega heilsu sína lengur og gefur ekki kost á sér í borgarstjórn áfram. Fréttablaðið/Stefán

„Þegar maður vinnur í pólitík … þá ertu bara í vinnunni frá því að þú vaknar og þangað til að þú sofnar. Ég var að vinna frá morgni til kvölds, dag eftir dag eftir dag, viku eftir viku. Þú færð ekkert frí um helgar eða á sumrin. Það er ekki þannig. Á sumrin er Alþingi í fríi svo þá er allur fókusinn á borgarstjórn og mikið á skipulagsmál, sem er frábært … en ég var í eilífu kapphlaupi við sjálfa mig. Mér fannst ég aldrei vera að gera nóg, mér fannst ég aldrei standa mig og var alltaf að reyna að gera betur hvern einasta dag.“


„Mér fannst ég aldrei vera að gera nóg, mér fannst ég aldrei standa mig og var alltaf að reyna að gera betur hvern einasta dag.“


Sigurborg brennur fyrir skipulagsmálum, lærði landslagsarkitektúr í Osló og gerði þar lokaverkefni um sjálfbært samgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu. Þannig var hún í sinni draumastöðu sem formaður skipulags-og samgöngunefndar. „Og það held ég að sé kannski hættulegur kokteill,“ segir hún og vísar til álagsins og veikinda sinna.

Hún bendir jafnframt á mikinn hraða í samfélaginu og þrýsting um að svara fyrir allt öllum stundum, hvort sem það sé á Twitter, Face­book eða í tölvupósti.

„Og þú reynir náttúrulega þitt besta við að svara öllu. Ég myndi segja að það sé svolítið stór faktor sem að slítur fólki.“

Áreiti úti á götu og í sundi

Þá nefnir Sigurborg heiftina í umræðunni um skipulagsmál og segist hafa fengið aragrúa af skilaboðum sem voru full af heift vegna vinnu sinnar og stefnu borgarinnar í málaflokknum.

„Þau eru yfirleitt frá eldri karlmönnum,“ segir hún. „Sumir skilja eftir bréf heima hjá mér. Aðrir senda manni SMS svo maður kemst ekki hjá því að sjá það.“

Hún segir áreitið þó ekki bundið við skilaboð. „Sumir líta á það að fá að keyra bílinn sinn hratt sem einhver mannréttindi. Sem það er að sjálfsögðu ekki og á endanum er maður farinn að fá skammir fyrir það eitt að vera til. Ég upplifi áreiti úti á götu … ég er að hjóla einhvers staðar og það er öskrað á mig,“ segir Sigurborg.


„Ég upplifi áreiti úti á götu … ég er að hjóla einhvers staðar og það er öskrað á mig."


Hún segist ekki muna eftir neinum ákveðnum tímapunkti þar sem veikindin bönkuðu skyndilega upp á.

„Nei, þetta gerist smátt og smátt. Það er baunað yfir mig þegar ég er í sturtu í Vesturbæjarlauginni, þegar ég er að taka leigubíl eða hvað sem er, það bara stoppar ekkert,“ segir hún hlæjandi og hefur greinilega húmor fyrir aðstæðunum.

Þú ert ekki einu sinni örugg í sturtu?

„Nei! Það er alveg ótrúlegt. Málið er bara að vegna þess að ég brann svo rosalega fyrir þessu, þá horfðist ég ekki í augu við hvað væri að gerast. Að ég væri að klára bensíntankinn og ganga á einhverjar birgðir sem voru ekki til staðar í líkamanum.“

„Að geta voðalega lítið gert,“ segir Sigurborg aðspurð hvernig hún upplifi veikindin.


„Það var mikið um fjarfundi á þessum tíma og ef ég gat ekki setið lengur þá bara slökkti ég á myndavélinni og lagðist. Það tók enginn eftir því,“ segir hún.


Skreið milli rúms og borðs


Eiginmaður Sigurborgar eyddi viku í sóttkví fjarri heimili þeirra hjóna á þessum tíma í fyrra.

„Þegar hann kom til baka, heim úr sóttkvínni, sá hann að ég var bara ekki sama manneskjan lengur. Þá var ég búin að vera ein heima með strákana í þessu og skreið bara á milli rúmsins og borðsins og gerði ekkert annað. Það er ótrúlegt hvað maður getur pínt sig lengi.“


„Þegar hann kom til baka, heim úr sóttkvínni, sá hann að ég var bara ekki sama manneskjan lengur."


Eftir að hafa rætt álagið og áreitið sem fylgir starfinu ítrekar Sigurborg að hún elski vinnuna sína. Hún fái til að mynda mikið af hrósi, mest frá eldri konum.

„Starfið er líka dásamlegt. Það er líka gefandi og það eru algjör forréttindi að fá að starfa við þetta og ég hef kynnst mikið af yndislegu fólki. Það besta af öllu er að geta hjálpað fólki. Það er bara stórkostlegt, að geta unnið með íbúum að þeirra málefnum.“

Sigurborg nefnir sem dæmi hraðalækkunina á höfuðborgarsvæðinu sem kynnt var á dögunum. „Þetta kemur upprunalega frá íbúum í öllum hverfum, sem hafa verið að berjast fyrir lægri hraða. Og sums staðar í áratugi. Jú, jú, það hefur verið gagnrýni á þetta en við sjáum líka að íbúaráðin og foreldrarnir í hverfunum, þeir eru ánægðir. Þetta er bara framtíðin. Þannig að starfið er líka dásamlega gefandi.“

Sérstaklega erfitt fyrir konur


Hún segir aðstæður í borgarstjórn sérstaklega erfiðar fyrir konur. „Það er miklu oftar gert lítið úr mér og mínum málflutningi. Sérstaklega þegar kemur að samgöngumálum, eðli málsins samkvæmt.“

Hún segir álagið hafa aukist til muna með breyttu fyrirkomulagi og fjölgun borgarfulltrúa samhliða kosningum árið 2018. Nú sitja allir borgarfulltrúar í ráðum og nefndum.

„Það er miklu meira álag. Ég upplifi í borgarstjórninni sjálfri að það sé meira um ómálefnalega gagnrýni og það er oft mikið um heift og reiði sem eru kannski ekki beint eðlileg samskipti. Mér fannst rosalega erfitt að koma inn í þann heim,“ segir hún.

„Því maður hélt að allir töluðu bara saman, eins og ég og þú gerum núna. En það er ekki þannig í borgarstjórn.“


„Ég upplifi í borgarstjórninni sjálfri að það sé meira um ómálefnalega gagnrýni og það er oft mikið um heift og reiði sem eru kannski ekki beint eðlileg samskipti."


Bíllinn er ekki framtíðin


Talið berst að samgöngumálum og er augljóst að borgarfulltrúinn brennur fyrir málaflokknum og veit sínu viti. Aðspurð hvort hún hafi alltaf stefnt að starfi sínu í skipulags-og samgönguráði Reykjavíkur hlær Sigurborg og segir svo ekki vera. Áhuginn hafi kviknað á námsárunum í Osló.

„Ég vann með þessi þema allt námið úti,“ segir Sigurborg. „Ég sá bara, vegna þess að ég hafði tíma til að sökkva mér ofan í efnið, og það blasir við öllum þeim sem virkilega stúdera þessi mál; samgöngur og umhverfismál, að bíllinn er ekki framtíðin eins og hann er í dag. Það er bara alveg skýrt.“


Sama sé hvort litið sé til loftlagsmála, öryggisins eða rekstrarkostnaðar heimilanna vegna bílsins. „Þetta gengur ekki upp fyrir hvorki ríki né sveitarfélög að ætla að viðhalda svona ofboðslega dýru samgöngukerfi. Það er alveg sama frá hvaða hlið þú horfir á það, í raun og veru er það bara dálítið skrítið hvernig við höfum leyft þessum öflum, sem bílaiðnaðurinn er, að móta okkar samfélag. Það er eiginlega hálf sturlað.“

Sigurborg Ósk er þjökuð af þreytu, máttleysi og þunglyndi sem rænir hana öllum mætti til þess að berjast í stjórnmálum þótt viljinn sé enn mikill. Fréttablaðið/Stefán

Ef ætlunin sé að skapa besta samgöngukerfið, segir Sigurborg að það yrði sjálfbært samgöngukerfi sem allir hafi jafnan aðgang að.

„Það er ekki háð því að þú fáir nægar tekjur til að eiga og reka bíl. Uppistaðan væri almenningssamgöngur og síðan værum við með allar þessar deililausnir.“

Þú ert fljót að komast í þennan gír.

„Já! Ég spóla bara áfram. Ég held ég verði í þessu alla ævi sko,“ svarar Sigurborg hlæjandi og viðurkennir að það verði erfitt að kúpla sig út. Hún eigi eftir að sakna þess að mæta í viðtöl og ræða þessi mál.

„Því að oft vantar svona mótvægi. Mér finnst allt of oft birtast viðtöl við forstjóra olíufyrirtækja eða bílaumboða sem fá að slá fram einhverjum fyrirsögnum eins og „Íslendingar hafa valið einkabílinn.“ Þeir hafa ekki einu sinni spurt þjóðina! Þetta er bara það sem þeir vilja selja,“ segir hún létt í bragði og bendir á að kannanir hafi sýnt fram á að einungis 40 prósent Íslendinga vilji fyrst og fremst nýta einkabílinn, aðrir kjósi aðra samgöngumáta.

„En alls ekki allir hafa möguleika á því. Mér finnst það vera hlutverk stjórnvalda að skapa þann möguleika en ekki að eltast við dynti þeirra sem eru að selja eða framleiða bíla. Það er alveg galið.“


Fannst ég aldrei gera nóg


Ef við lítum um öxl. Er eitthvað ákveðið sem þú ert stoltust af, á þínum ferli í borgarstjórn?

„Ef þú hefðir spurt mig fyrir nokkru síðan þá hefði ég ekki getað svarað neinu sko, því mér fannst ég aldrei gera neitt og aldrei gera nóg. En svo núna í veikindafríinu hef ég aðeins þurft að gíra mig niður og aðeins getað horft yfir. Og það er náttúrulega rosalega margt, í raun og veru.“

Hún nefnir að aldrei hafi verið jafn margar göngugötur í borginni og þá nefnir hún hraðalækkun sem kynnt var á dögunum.

Sigurborg nefnir að þegar ekið var á barn á Hringbraut árið 2017 hafi hreyfing loks orðið á þeim málum. „Það var eins og að lenda í einhverri stórkostlegri hringiðu. Ég hefði aldrei trúað því að það þyrfti að berjast, bókstaflega, fyrir því að ná niður hraða. Sem ég gerði að sjálfsögðu því þetta var allt mjög vel unnið á sínum tíma og er allt byggt á reynslu annarra landa í kringum okkur og þá sérstaklega Svíþjóðar. Þetta er því ekki skot út í bláinn, þetta eru bara niðurstöður rannsókna.“


Þunglyndið jókst á tímabilinu


Talið berst aftur að Sigurborgu sjálfri. „Ég er náttúrulega bara númer eitt, tvö og þrjú núna að hugsa um að ná heilsu aftur, ég held áfram í Pírötum og sé fyrir mér að geta unnið áfram með flokknum. Við sjáum svo bara til hvað tíminn leiðir í ljós. Ég hef ekkert leyft mér að hugsa neitt lengra út af því að ég get bara tekið eitt skref í einu. En ég held að það sé alltaf eitthvað skemmtilegt, segir hún.

„En ég hef líka verið að glíma við þunglyndi. Sem hefur aukist eftir því sem hefur liðið á kjörtímabilið. En ég er með frábæran geðlækni, sem hjálpar mér mikið en þetta gerir svolítið vont verra. Á sama tíma og þú brennur fyrir starfinu þínu, gengurðu kannski um með ákveðið tilgangsleysi í bringunni. Það gerir allt erfiðara. Auk þess sem ég vildi aldrei viðurkenna að ég væri þunglynd,“ segir hún. Hún hafi ætlað að harka þetta af sér. „Af því að mér fannst ég ekki eiga rétt á því. Ég væri bara á góðum stað í lífinu, með heilbrigð börn og vinnu, af hverju í ósköpunum ætti ég að vera þunglynd?“


Borgarstjóri er límið


Sigurborg segir samstarf meirihlutans hafa gengið vonum framar. Horfa megi til þess við ríkisstjórnarmyndun. „Ég held nefnilega að fólk átti sig ekki alltaf á því hvað það eru ólíkir flokkar að vinna saman.“ Hún segist hafa þroskast mikið sem róttækur Pírati. „Ég held að framtíðarríkisstjórnir gætu grætt mikið á því að líta til þessa samstarfs. Hvernig ólíkir flokkar og ólíkir einstaklingar geta unnið saman að hagsmunum heildarinnar.“


„Ég held að framtíðarríkisstjórnir gætu grætt mikið á því að líta til þessa samstarfs. Hvernig ólíkir flokkar og ólíkir einstaklingar geta unnið saman að hagsmunum heildarinnar.“


Hún hrósar borgarstjóra í hástert. „Hann er límið. Og það er hann sem leggur sig svona óendanlega mikið fram um að fólk vinni saman. Við fundum saman nánast alla daga. Það er það mikil samvinna, það er lykillinn að þessu. Og við sjáum það bara í framtíðarpólitík að flokkum er sífellt að fjölga, alveg sama hvort það er í sveitarstjórnum eða á Alþingi og þá verðum við að geta unnið saman, svo ég held að við getum lært mikið af honum.“

Hún vill áframhaldandi samstarf sömu flokka næsta kjörtímabil en hefur áhyggjur af því að starfsumhverfi stjórnmálanna muni skila sér í einsleitari stjórnmálamönnum.

„Ég held þetta henti síður konum, síður barnafólki. Og líka bara fólki sem kannski hefur lent í ofbeldi gegnum ævina. Ég held að þetta sé erfitt umhverfi fyrir fólk til að koma inn í. Við þurfum svolítið að hlúa betur hvert að öðru og mannkærleikanum. Við erum öll mannleg, við gleymum því bara stundum.“

Athugasemdir