Á­fram má búast við veru­legum tjöru­blæðingum á veginum frá Borgar­firði í Skaga­fjörð í dag og jafn­vel næstu daga. Á­standið á veginum lagast ekki fyrr en veður breytist; það fer aftur að kólna eða rigna. Miðað við spá Veður­stofunnar virðast slíkar breytingar ekki kortunum á svæðinu fyrr en á fimmtu­dag.

Lög­reglan á Norður­landi vestra varaði við tjöru­blæðingunum í gær og bað öku­menn að fara var­lega. Að minnsta kosti eitt um­ferðar­ó­happ var í gær vegna að­stæðnanna. Vega­gerðin sendi frá sér til­kynningu í morgun þar sem varað er við að blæðingarnar verði á­fram í dag og eru veg­far­endur beðnir að hægja ferðina þegar þeir mæta öðrum bílum vegna hættu á stein­kasti.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi vega­gerðarinnar, að búið sé að koma fyrir við­vörunar­skiltum við veginn. „Við skoðuðum þetta í gær og nú er fólk að fara að hreinsa veginn. Það koma slettur á veginn sem þarf að skafa af.“

Hann segir blæðingarnar á veginum hafa verið mjög miklar þegar Vega­gerðin skoðaði veginn í gær. „Þetta er ó­venju­mikið. Ég sé ekki að það ætti að verða öðru­vísi í dag,“ segir Pétur. „Þetta lagast ekki fyrr en veður breytist.“

Ljóst er að ein­hverjar skemmdir hafa orðið á bílum vegna á­standsins á veginum og til­kynnti lög­regla um það í gær að að minnsta kosti eitt um­ferðar­ó­happ mætti rekja til að­stæðna á veginum. Fram­kvæmda­stjóri Vöru­miðlunar á Sauð­ár­króki, Magnús E. Svavars­son, hefur til­kynnt Vega­gerðinni um milljóna­tjón á ellefu til tólf vöru­bílum fyrir­tækisins sem urðu fyrir skemmdum á veginum í gær.

Í sam­tali við RÚV í morgun sagði hann að skemmdirnar á bílunum væru veru­lega miklar; tugir kílóa tjöru sem hafa fest utan á dekkin, brotin ljós og bretti. Þá sagði hann stór­hættu­legt að vera í um­ferðinni þegar klæðningin spýtist undan dekkjum.