Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að sala flugvélarinnar TF-SIF verði líklega dregin til baka. Það kom fram í kvöldfréttum á Stöð 2 í kvöld en þar var rætt við Jón að loknum vinnufundi ríkisstjórnarinnar. Nánar hér á vef Vísis.
Hann sagði að það hefði ekki verið nóg til reksturins í fjárlögum en að hann finndi góðan hug fyrir því að draga ákvörðunina til baka og að rekstur flugvélarinnar verði haldið áfram. Á sama tíma verði þó leitað hagræðinga í rekstri inn í framtíðina.

Jón segir í samtali við Fréttablaðið að formleg ákvörðun hafi ekki verið tekið um málið en miðað við viðbrögð ráðherra og þingmanna geri hann fastlega ráð fyrir því að hætt verði við söluna og aðrar leiðir fundnar til að halda rekstri LHG áfram með óbreyttu sniðu.
„Tillagan hefur ekki fallið í góðan jarðveg og ég finn fyrir miklum vilja bæði þingmanna og ráðherra að bregðast við þessu með öðrum hætti og tryggja rekstur þessarar vélar áfram í starfsemi gæslunnar,“ segir Jón. „Ég í sjálfsögðu fagna því að við förum ekki að grípa til þessara aðgerða á þessum tíma. Það hefur svo sem ekki verið nein formleg ákvörðun tekin um það en ég reikna með því út frá þessum viðbrögðum að við munum reyna að tryggja fjármögnun gæslunnar svo við getum haldið óbreyttri starfsemi út þetta ár.“
Jón segir að hann hafi falið gæslunni að undirbúa söluferli á vélinni eftir að komist var að þeirri niðurstöðu að sala hennar væri skásta leiðin til að ráða bót á fjárhagsvanda hennar. Hins vegar hefði Alþingi alltaf komið til með að eiga lokaorðið um söluna og muni enn eiga lokaorðið um framhaldið ef hætta á við söluna og finna aðrar leiðir til að fjármagna óbreyttan rekstur.
„Ákvörðun liggur alltaf hjá Alþingi í fjárveitingum og öðru og ég reikna með því að það verði niðurstaðan núna,“ segir Jón.
Frá því að tilkynnt var um söluna fyrr í vikunni hafa fjölmargir gagnrýnt ákvörðunina en fram hefur komið að ráðherra hefur ekki heimild í fjárlögum til að selja vélina og að samþykki þingmanna á þingi hefði verið nauðsynlegt.
Fréttin var uppfærð eftir að Fréttablaðið náði tali af dómsmálaráðherra